Spurning:
Kæra Dagný,
Ég er 21. árs gömul og missti fóstur í júlí en varð strax aftur ófrísk. Núna er ég komin ca. 7-8 vikur á leið (sama meðgöngulengd og þegar ég missti fóstrið síðast). Fyrir viku byrjaði að blæða og ég fór í skoðun og fóstrið var á lífi!! Núna er ennþá brúnleit útferð og fer minkandi en ég er komin með svolitla túrverki, eða seiðing getur það verið af því ég er að missa fóstrið eða er það eðlilegt. Ég er einnig með smá hægðatregðu og er eiginlega ekki viss hvaðan þessir verkir koma. Er meiri hætta á að ég missi þetta fóstur af því ég var nýbúin að missa og ég hef líka farið í fóstureyðingu (þegar ég var 16 ára).
Getur stress yfir þessu valdið fósturláti eða verkjunum. Að þeir séu ekki raunverulegir. Afhverju getur blætt en það er ekki fósturlát?
Með fyrirfram þökkum. X
Svar:
Blessuð
Túrverkjaseiðingur er mjög algengur þegar legið tekur að stækka. Úr því að fóstrið var lifandi og blæðingin er orðin að brúnleitri útferð eru líkur á að fóstrið sé búið að hreiðra um sig og hættan að líða hjá. Svona blæðingar í byrjun meðgöngu eru fremur algengar – en vitaskuld ertu hrædd úr því að þú ert nýbúin að missa fóstur. Það getur blætt við að frjóvgaða eggið grefur sig ofan í slímhúð legsins. Einnig blæðir stöku sinnum frá fylgjuröndinni þegar fylgjan breiðir úr sér. Ég vil benda þér á að lesa um blæðingar á meðgöngu á NetDoktor. Það er rétt hjá þér að það er aukin hætta á að missa fóstur ef kona hefur nýlega misst fóstur. Fóstureyðing getur einnig veikt leghálsinn svo hætta á fósturláti aukist, en það er ekki algengt. Streita á hins vegar sjaldnast sök á fósturláti því streituhormónið Adrenalín veldur slökun á legvöðvanum. Steita er þó engum holl – allra síst konum í barneignarhugleiðingum. Reyndu bara að fá góða hvíld og borðaðu hollan mat og taktu inn fjölvítamín með fólínsýru. Þannig færðu bestu byrjun á meðgöngu. Reyndu einnig að ráða bót á hægðatregðunni því hún getur líka valdið verkjum og hægðatregða versnar einnig yfirleitt er líður á meðgöngu. Ef þú hins vegar missir þetta fóstur líka – sem vonandi gerist ekki – skaltu láta athuga þig vel hjá kvensjúkdómalækni því það er ýmislegt sem getur valdið fósturláti, eins og t.d. sýkingar ýmiskonar. Svo vona ég bara að þetta gangi allt saman vel hjá þér.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir