Mjólk í pela hjá 2 og 1/2 árs?

Spurning:
Góðann daginn.
Mig langaði að spyrja í sambandi við vandamál sem við eigum í, varðandi strákinn okkar sem er rúmlega 2 og hálfs árs. Málið er, að vegna kringumstæðna byrjaði hann að fá pela með mjólk fyrir/yfir nóttina fyrir ca hálfu ári síðan. Við vitum að þetta er alls ekki æskilegt tannanna vegna, en mig langaði að spyrja um tvennt í sambandi við þetta. Í fyrsta lagi: er líklegt að þetta hafi áhrif á matarlyst hjá honum? Þá erum við að tala um að hann fær fyrsta pelannn um 9 leytið og svo kannski einu sinni eða tvisvar yfir nóttina. Og svo í öðru lagi: hefur styrkleikinn af mjólk eitthvað að segja hvað varðar tennurnar? Við erum núna komin niður í ca 1 hluta mjólkur á móti 4-5 hlutum vatns, stundum er það meira að segja fjörmjólk annars léttmjólk. Það væri gott að fá svar við þessu, þar sem við viljum auðvitað gera barninu okkar sem best, auk þess sem umræður hafa spunnist um það á heimilinu hvort við séum að beita ,,réttum“ aðferðum hvað varðar að venja hann af pelanum, sem sagt smátt og smátt. Með fyrirfram þakklæti, kv

Svar:

Sæl.
 
Líklegt verður að teljast að því meira sem drengur láti í sig af mjólkinni þeim mun minna taki hann til sín af annarri fæðu. Slíkt getur orðið til vandræða.
Að minnka svona smám saman styrk mjólkurinnar í blöndunni er sennilega allra aðferða líklegust til þess að venja strák bæði af pela og mögulegu mjólkurþambi. 
 
Með góðri kveðju,
 
Ól. Hösk.
 
ÓLAFUR HÖSKULDSSON, DDS, Ped Dent
Assistant Professor and Head
Division of Paediatric Dentistry