Spurning:
Góðan daginn.
Ég er 27 ára gömul og ólétt af mínu þriðja barni. Ég hef aldrei geta mjólkað nóg þó að ég hafi reynt margt. Ég hef reynt að mjólka mig, látið barnið oft á brjóst, þambað malt, ávaxtsafa og vatn en ekkert hefur gengið, þau hafa bara ekki fengið nóg hjá mér. Annað brjóstið á mér er talsvert minna en hitt og mjólkar alveg greinilega minna. Hvað get ég gert til að ég mjólki nóg fyrir þetta barn?
Með fyrirfram þökk
Svar:
Sæl.
Þú getur þess ekki hvort börnin hafi þyngst vel. Oft virðast börn nefnilega svöng þótt móðirin mjólki nóg og jafnvel of mikið. En ef börnin hafa ekki náð að þyngjast þrátt fyrir tíðar gjafir og góðan tíma á brjóstinu er líklegt að um ónóga mjólk hafi verið að ræða. Þú ert greinilega með það á hreinu hvernig á að auka mjólkina því allt sem þú gerðir var rétt. Það er fátt til viðbótar sem þú getur gert. Farðu þó í þetta með jákvæðu hugarfari því oft mjólka konur meira eftir því sem þær eiga fleiri börn. Gefðu þér góðan tíma með barninu, leggðu það á brjóst þegar það vill (ekki sjaldnar en á 3 tíma fresti á daginn, 4-5 tímar á nóttinni), lofaðu því að sjúga eins lengi og það vill og skiptu um brjóst þegar það sleppir sjálft. Það er ágætt að lofa barninu að taka hvort brjóst 2-3 sinnum í hverri gjöf ef mjólk er lítil. Ekki er óeðlilegt að hver gjöf taki 1-2 klst. til að byrja með.
Gefðu barninu ekki snuð fyrstu vikurnar meðan brjóstin eru að komast í fulla framleiðslu og ef þú þarft að gefa ábót reyndu þá að gefa hana frekar með staupi eða sprautu. Eins eru til svokölluð hjálparbrjóst sem eru brúsar með slöngu út úr sem barnið sýgur um leið og brjóstið og fær þannig ábótina sína og örvar brjóstið um leið. Þannig hafnar barnið heldur ekki brjóstinu fyrir pelann. Ef barnið er kröftugt og duglegt við brjóstið skaltu sleppa því að mjólka þig. Hvíldu þig í staðinn. Svo er bara að drekka nóg – malt og pilsner auka vissulega mjólkina en notaðu það í hófi því það rænir þig líka lystinni á öðrum mat. Fáðu líka ráð og stuðning hjá hjúkrunarfræðingnum í ungbarnaverndinni. Svo vona ég að þetta gangi betur í þetta skiptið.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir