Mjólkurframleiðsla stöðvast

Spurning:

Komiði sæl.

Ég er nítján ára og var að eiga mitt fyrsta barn. Ég er búin að vera með það á brjósti í þrjár vikur og allt hefur gengið mjög vel þar til núna.

Mjólkurframleiðslan virðist vera dottin alveg niður. E það eðlilegt svona allt í einu?

Takk kærlega fyrir.

Svar:

Sæl og til hamingju með barnið.

Úr því að brjóstagjöfin hefur gengið vel hingað til finnst mér ekki eðlilegt að mjólkurmyndunin hætti svona skyndilega. Það sem mér finnst eðlilegri skýring er að brjóstin séu bara orðin mjúk og framleiði mjólkina um leið og barnið sýgur. Barnið er einnig komið upp úr fóstursvefninum og farið að vaka meira – væntanlega síðdegis og á kvöldin. Það er ungbörnum eðlilegt að vera mikið á brjósti þann tíma sem þau vaka. Þau geta þurft að taka bæði brjóstin oft með stuttu millibili í allt að 2-4 tíma. Svo líða kannski 2-4 tímar sem þau sofa og vilja svo aftur taka svona törn. Ef barnið fær að vera við brjóstið eins og það þarf, þyngist eðlilega, bleytir 6-8 bleiur á dag og kúkar 3-7 sinnum í viku, þá fær það nóg. Um leið og farið er að gefa ábót minnkar mjólkin í brjóstunum vegna þess að örvunin verður minni og þá er þess ekki langt að bíða að brjóstagjöfin fari forgörðum. Sá tími sem barnið þarf mest á brjóstamjólkinni að halda er stuttur og það er vel þess virði að verja honum í brjóstagjöf sem segja má að sé fyrsta heilsuvernd barnsins. Gefðu ykkur bara góðan tíma og njóttu barnsins og brjóstagjafarinnar.
Gangi ykkur vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir