Mjólkurneysla og krabbamein?

Spurning
Er e-ð til í því að mjólk sé góð næring fyrir krabba (geti aukið, hraðað vexti), á einstaklingur með krabba að hætta eða minnka neyslu mjólkurvara?

Svar:
Sæl.

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.

Þetta mál er, að því ég best veit, á mjög gráu svæði en þessi umræða sprettur oft upp. Er skemmst að minnast fyrirlestrar breskrar konu sem kom til Íslands í fyrrahaust og taldi hún sig hafa ,,svelt“ sitt krabbamein sem talið var ólæknandi í burtu með algjöru kúamjókurbindindi. Hafði henni reitt ótrúlega vel af eftir að hún breytti mataræðinu og að því er manni skildist kunnu hennar krabbameinslæknar enga skýrirngu á batanum. Hún heitir að mig minnir Jane Plant og er jarðfræðingur að mennt og þetta þótti áhrifamikið erindi.  Örugglega er hægt að ,,googla“ nafninu hennar og fá abstrakta.

En læknavísindin hafa að því er ég best veit engar óyggjandi sannanir fyrir þessu og sitt sýnist hverjum.  Þó eru nú margir læknar sammála um það að kúamjólk, sem frá náttúrunnar hendi er ætluð kálfum, sé ekki heppileg í stórum stíl, fullvöxnu fólki.

Svo verður bara hver að ákveða fyrir sig…

Kveðja,
Kristín hjúkrunarfræðingur Krabbameinsráðgjöfinni.