Modigen og getnaðarvarnarpillan?

Spurning:
Ég er nýbyrjuð að taka inn náttúrulyfið Modigen samkv. ráði frá sálfræðingi. Síðan þegar ég fór að lesa leiðbeiningarnar með pakkningunni sá ég að töflurnar geta minnkað virkni getnaðarvarnarpillunnar (sálfr. tók það ekki fram)! Er á Yasmin p-pillunni og langar mikið að vita hvort mikil hætta sé á þungun? Annars veit ég að lítið er almennt vitað um Modigen, en vonandi að ég geti fengið einhver svör?

Svar:

Modigen eins og nokkur fleiri lyf örva niðurbrot hormónalyfja í lifur. Ég hef ekki upplýsingar um hversu mikil hætta er á þungun þrátt fyrir notkun getnaðarvarnartaflna, ef Modigen er tekið jafnframt.
Í opinberum texta í Sérlyfjaskrá um Yasmin og aðrar getnaðarvarnartöflur segir að konur sem taka einhverja þá lyfjaflokka eða lyf sem talin eru upp í textanum, þ.á m. Modigen til skamms tíma (í allt að eina viku) skulu því einnig nota til bráðabirgða aðra getnaðarvarnaraðferðir án hormóna til viðbótar getnaðarvarnartöflunum, þ.e.á meðan þær taka hitt lyfið og í 7 daga eftir að þær hafa hætt því.
Einnig segir í þessum textum að við langtímanotkun með lifrarensímörvandi lyfjum (eins og Modigen) mæla sérfræðingar með að nota getnaðarvarnartöflur með hærra hormónainnihaldi. Ef ekki er óskað eftir háum hormónaskammti til getnaðarvarnar eða ef þessi hái skammtur er ófullnægjandi eða óöruggur, t.d. við óreglulegar blæðingar, skal ráðleggja aðra getnaðarvörn.
Þú verður því að ræða þetta við lækninn þinn og fá ráð hjá honum um þetta mál.
 
Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur