Mononucleosis eða einkyrningasótt

Spurning:
Ég fór í blóðprufu vegna flensueinkenna sem ég var búin að vera með í tæpar 2 vikur (margir bólgnir eitlar á hálssvæði, hitavella, nefstífla, slappleiki, höfuðverkur, verkir í vöðva og eymsli ofarlega í kvið). Það var hringt í mig til baka og ég hafði greinst jákvæð á fyrir Mononucleosis eða einkirningasótt. Mig langaði að spyrja hversu örugg sú greining er eða réttara sagt þetta „Monotest“ sem gert er og var „pósítíft“? Mælir þetta próf mótefni gegn Epsten-Barr veirunni í blóðinu? Einnig skylst mér að eitt helsta einkenni veirunnar séu bólgnir hálskirtlar með hvítri skán. Ég hef enga hálsbólgu fengið enda búið að taka úr mér hálskirtlanna. Hinsvegar er ég búin að vera mjög þurr í munninum og með munnangur (verð aum stundum í tannholdinu og á tungu af tannburstun). Getur veiran komið þannig fram í munni?

Svar:
Hægt er að vera nokkuð viss um greininguna ef monotest er jákvætt. Þetta monotest mælir mótefni gegn Epstein Barr veirunni sem veldur einkyrningasótt. Einkenni þessarar veiki er eitlastækkanir, hálsbólga, hiti og slappleiki en ekki eru alltaf öll einkenni til staðar. Þannig getur þú vel verið með einkyrningasótt þrátt fyrir að engin hálsbólga sé til staðar.  Einnig er oft samfara stækkun á milta sem skýrt gæti eymsli ofarlega í kvið. Einkennin frá munni sem þú nefnir eru hins vegar ekki dæmigerð einkenni þessarar veirusýkingar og ættir þú að leita til tannlæknis ef þessi einkenni verða viðvarandi.

Kveðja,

Einar