Munnúðavítamín betri en venjuleg vítamín?

Spurning:

Sæl.

Mig langar að fá álit sérfræðings á munnúðavítamínum. Þannig er að nýlega bankaði hjá mér kona sem var að kynna þessi vítamín sem seld eru í heimasölu og samkvæmt bæklingi sem hún lét mig fá, fara þessi vítamín strax inn i blóðrásina. Sagði hún það mun betra og fljótvirkara. Í bæklingnum er súlurit sem sýnir að þessi vítamín eru með betra frásog en önnur (sprautur, pillur). Einnig er talað um hæðir og lægðir ef pillur eru teknar inn, sem er víst mjög slæmt fyrir líkamann. Samkvæmt bæklingnum á að nota 2 sinnum 4 úða á dag.

Spurningarnar eru: Hvað er betra við þessi vítamín en önnur? Ef þetta er betra hvað þá með önnur lyf, hvers vegna eru þau ekki framleidd í svona úða? Með þökk.

Svar:

Frásog um munnslímhúð er hratt og það þýðir að styrkaukning vítamínanna í blóðinu er meiri en ef um hægara frásog væri að ræða (ef t.d. eru notaðar töflur eða forðatöflur). Blóðstyrkurinn ræðst líka af því hversu fljótt vítamínin brotna niður og eru skilin út. Þegar viðhalda þarf blóðstyrk lyfja eða vítamína og ef gera á að það þannig að sveiflur í blóðstyrk séu sem minnstar þá þarf að auka tíðni gjafa (inntöku) meira eftir því sem lyfið/vítamínið brotnar hraðar niður og eftir því sem það frásogast hraðar. Það er þægilegt að taka vítamínin á þessu formi (munnúði) og mér skilst að Lyfjaeftirlit ríkisins hafi ekki gert athugasemd við innflutning á því sem hér er spurt um. Því er ekki ástæða til að óttast að varan innihaldi óleyfileg eða skaðleg efni. Önnur munnúðavítamín gætu innihaldið skaðleg efni og er dæmi um eina gerð sem seld var á Íslandi. Það að gefa lyf með þessum hætti er mjög sniðugt og þá sérstaklega ef svona úðalyf geta komið í stað stungulyfja sem fólk þarf að nota oft eða sem þarf að nota á börn eða marga á skömmum tíma (t.d. insúlín og bóluefni).
Talsvert hefur verið reynt að nota þessa aðferð fyrir insúlín hjá sykursjúkum en vandamálið er að skömmtunin er ónákvæm vegna þess að það eru svo margir þættir sem geta haft áhrif á frásog í gegnum slímhúðir. Það gengur ekki í lyfjagjöf sem þarf að vera nákvæm. Það er líka verið að vinna mikið í því að þróa bóluefni sem eru gefin í nefúða sem frásogast þá frá nefslímhúð. Þær rannsóknir ganga vel og verður sennilega farið að bólusetja með nefúða innan fárra ára.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur