Náladofi

Hæ ég er alltaf að fá náladofa í hægri hendinni á nóttunni sem er mjög pirrandi, gæti verið að ég ligg ofana henni en ertu nokkuð með eitthvað ráð

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það er mjög sennilegt, eins og þú nefnir, að þetta sé tengt því að svefnstaða þín sé að valda því að blóðflæði til handarinnar skerðist eða þrýstingur verði á taug. Þó eru einnig aðrar skýringar mögulegar og því myndi ég hvetja þig til að láta athuga þetta betur hjá heimilislækni ef þetta lagast ekki, versnar eða ef önnur einkenni sem valda þér áhyggjum fylgja þessu, s.s. verkir, einkenni að degi til eða minnkuð hreyfigeta.

Gott væri ef þú gætir athugað hvort einkennin minnki við það að þú breytir þeim stellingum sem þú sefur í. Reyndu að forðast það að sofa í fósturstellingu eða með bogna olnboga þar sem þetta getur aukið líkur á náladofa. Ef þú sefur á maganum ættir þú að reyna að passa það að þú sofir með hendur út til hliða og gæta þess að hafa þær ekki undir höfði eða búk eins og mögulegt er. Forðastu að hvíla hendur fyrir ofan höfuð þar sem það getur skert blóðflæðið og ýtt undir náladofa.

Vissulega er erfitt að hafa stjórn á hreyfingum sínum í svefni, en þú gætir þá til dæmis skorðað sængina þannig að erfiðara sé að fara í óhagstæða stellingu að næturlagi.

Gangi þér vel

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur