Næring á meðgöngu?

Spurning:
Ég er með 2 spurningar sem tengjast meðgöngu.

Nú hefur verið talað um að ekki eigi að taka herbalife á meðgöngu þar sem ekki er alveg vitað um öll efni sem eru í því en hvernig er með Nupo létt, og þá er ég ekki að meina að lifa eingöngu á því heldur að nota það með, er það í lagi? Það hefur nú verið í boði á Íslandi í mörg ár og væntanlega mikið vitað um innihald þess eða hvað?

Svo er það líkamsrækt, er í lagi að lyfta og hlaupa, ég er (var) vön þessum æfingum en hef ekki æft í ca 8 mánuði? Svo vil ég að lokum þakka fyrir þennan frábæra vef, hann hefur komið að miklu gagni og megið þið hafa mikla þökk fyrir.

Svar:
Svar við 1. spurningu: Ef um er að ræða Herbalife- eða Nupo-létt duft þá tel ég víst að ófrískar konur geta neytt þess án þess að hafa áhyggjur af að verið sé að stofna heilsu ófætts barns þeirra í hættu. Enda er í duftinu, mér vitanlega. ekki að finna óæskileg efni s.s. örvandi eða vatnslosandi. Aftur á móti ættu ófrískar konur (og reyndar aðrir) að varast pillur, töflur og te sem margir fæðubótarframleiðendur bjóða upp á enda vitað að óhófsneysla fæðubótarefna (eins og vítamína og steinefna) er ekki til góðs og sumar fæðubótarafurðir innihalda jafnvel örvandi, róandi og vatnslosandi efni. Að þessu sögðu vil ég að sjálfsögðu hvetja verðandi mæður, sem og alla aðra, að einblína á fjölbreytt fæði úr öllum fæðuflokkum og ef viðkomandi ákveður að neyta næringardufts að neyta þess í miklu hófi.

Svar við 2. spurningu: Ef meðgangan gengur vel ætti ekki að vera nein fyrirstaða fyrir þig að stunda reglubundna hóflega þjálfun alla meðgönguna.

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur