Náttúruleg efni og einbeiting

Spurning:

Ég æfi íþrótt sem krefst 100% einbeitingar með augum og heila. Ég æfi ca. 5 daga vikunnar og því reynir mikið á höfuðið og augun.

Nú spyr ég:
Hvaða náttúrulegu efni, eða lyf, gætu komið til greina til að minnka álagið? M.ö.o., aukið einbeitingu og andlegt úthald?

Með fyrirfram þökk.
Íþróttamaður.

Svar:

Við svona mikið álag er hætta á að streita og blóðþrýstingur aukist.

Í rannsóknum á mönnum hefur komið í ljós að ferskur hvítlaukur hafi góð áhrif á hjarta- og æðakerfi, þar á meðal lækkun á blóðþrýstingi. Skiptar skoðanir eru um skammtastærðir, sumir telja ½ – 1 rif af ferskum hvítlauk á dag vera nóg en aðrir segja að þurfi allt að 20 rif á dag. Til að vera ekki of stórtækur er gott að byrja á 1 rifi á dag. Erfitt er að segja til um verkun lyktarlausra hvítlauksafurða vegna þess að lyktin er af ýmsum virkum efnum (brennisteinssamböndum) í hvítlauknum. Varast ber að taka mjög stóra skammta vegna álags á nýrun og hugsanlegra nýrnaskemmda.

Ginkgó getur verið gagnlegt við blóðrásartruflunum í heila og útlimum.

Kvöldvorrósarolía virðist líka hafa góð áhrif á hjarta- og æðakerfið en mikilvægast er sennilega að lifa reglusömu lífi. Sofa á reglulegum tímum og gæta þess að fá nægan svefn, vera alltaf úthvíldur. Borða hollan og góðan mat, þar er mikilvægt augnanna vegna að fá nægilegt A-vítamín. Lýsi er góð uppspretta þess. Þó svo að ég þekki lítið jóga eða hugleiðslu þá gæti það verið gott til að öðlast innri frið og hugarró (a.m.k.fyrirhafnarinnar virði!).

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur