Næturóværð og fæða móður?

Spurning:
Barnið okkar fær í magann á næturna, mig langaði að vita hvaða fæðutegundir bæri að varast fyrir konur með barn á brjósti.

Svar:
Ekki hefur verið hægt að sýna fram á það að nein fæðutegund sem móðirin neytir valdi almennt óværð hjá börnum annað en mjólkurvörur í þeim tilvikum þar sem um mjólkuróþol/-ofnæmi er að ræða. Hins vegar segir reynslan okkur að matvara sem móðirin er óvön að borða geti farið í magann á krílinu sem og mikið kryddaður matur, laukur, hvítkál, appelsínur, súkkulaði og kaffi. Ýmislegt annað segja einstaka mæður að fari illa í þeirra börn en það er bara einstaklingsbundið hvaða börn þola hvað og maður verður bara að þreifa sig áfram. Ekki er heldur víst að óværðin í barninu tengist í neinu því sem þú ert að láta ofan í þig. Oft er svona næturóværð tengd of mikilli mjólk og því að barnið nær ekki að sjúga næga fitu í gjöfinni. Þú getur prófað að láta það liggja lengur á fyrra brjóstinu áður en þú býður því hitt brjóstið til að það fái örugglega fituna sem kemur síðast í gjöfinni.

Bið þig að fyrirgefa hversu seint ég svara og vona að þið finnið eitthvað út úr þessu sem fyrst.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir