Spurning:
Halló.
Vonandi getið þið gefið mér svar fljótt. Ég fékk jákvætt í þungunarprófi í dag, er á 55dth, tók tvö og skýr kross í bæði skiptin. Málið er að við vorum búin að reyna í ár og ég fór síðast á blæðingar þann 16.des. og síðan átti ég að byrja aftur 13. janúar miðað við 28/29 dth (er alltaf regluleg) en það kom ekki og ég tók próf viku seinna en ekkert jákvætt. Síðan tók ég eftir aukinni slímútferð (eins og þeirri þegar ég er að fá egglos) c.a viku eftir ef ég man rétt. Er það hægt að konur geta fengið egglos þrátt fyrir að Rósa hafi ekki kíkt á milli tíðahringja? Hvernig er hægt að reikna út hvað ég er komin langt þar sem Rósa frænka kom ekki á milli tíðahringja? Von um svör, kveðja ein rugluð
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Þú byrjar að telja frá fyrsta degi síðustu tíða sem er þá 16 desember. Samkvæmt því ertu ca 9 vikur. Ég myndi ráðleggja þér að hafa samband við ljósmóður eða lækni og fá þetta staðfest og þá er jafnvel hægt að senda þig í sónar til að staðfesta meðgöngulengd, þar er hægt að mæla stærð fóstursins og reikna út frá því hversu langt þú ert gengin. Fyrst að þú fórst ekki á blæðingar í janúar og hefur alltaf verið regluleg þá er líklegt að þú hafir orðið ófrísk á tíðahringnum þínum frá desember til janúar.
Vona að þetta hjálpi eitthvað og gangi þér vel.
Bestu kveðjur
Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur