Spurning:
Góðan dag kæri viðtakandi.
Ég er móðir 7 mánaða drengs og við hjónin erum að vinna í því að kenna honum að sofna án þess að sofna við brjóstið og sofa alla nóttina (vaknaði 5-8 sinnum allar nætur og hann er tæp 12 kg). Hann fær þó brjóst yfir daginn ennþá og ætlum við bara að vinna í því í rólegheitum að hætta því. Næturnar verða bara að lagast til að mamman fái einhvern svefn. Við erum með voða notalega svefnrútínu sem er í föstum skorðum og við höfum notað þá aðferð að fara strax inn þegar hann byrjar að gráta, svo eftir 2 mín. og eftir það á 5 mín. fresti og aldrei lengur inni en í 2 mínútur. Honum er strokið í hvert sinn og gælt við hann. Nú eru 5 nætur búnar og drengurinn okkar þrjóskast við. Alltaf er gráturinn jafn sár og ekki styttist gráttíminn (grætur 30-40 mín. í hvert sinn sem hann vaknar). Hann vaknar þó ekki nema 2 sinnum nú.
Hvað tekur svona ferli yfirleitt langan tíma? Erum við að gera eitthvað rangt?
Kveðja,
Áhyggjufull móðir
Svar:
Sæl, áhyggjufulla móðir.
Eitthvað virðist þú vera að efast um réttmæti þess sem þið eruð að gera í uppeldinu. Það er alltaf erfitt að hlusta á börn gráta, enda er grátur merki um vanlíðan. Drengurinn á þó eftir að venjast á að sofa einn ef þið eruð föst fyrir og viðhafið alltaf sömu rútínuna. Hvort þessi uppeldisaðferð er „rétt" eða „röng" fer bara eftir viðhorfum til uppeldis. Til eru margar uppeldisaðferðir og misjafnt hverjar menn aðhyllast. En flestar uppeldisaðferðir byggjast þó á einhverskonar reglusemi – munurinn felst mest í því hver setur reglurnar og þeim samningum sem takast milli foreldra og barns. Ef barnið veit að það getur alltaf leitað til foreldra sinna og treyst því að þau leysi úr vandamálum og vanlíðan er næsta víst að það verði ánægður og heilbrigður einstaklingur. Ef barnið á hinn bóginn upplifir sífellda höfnun og að foreldrarnir taki ekki mark á því er hætt við að það gefist upp og hætti að treysta foreldrum sínum til að uppfylla þarfir þess.
Að grunninum virðist þið vera á réttri leið við að venja barnið á að sofa sjálft. Af bréfinu lítur út fyrir að barnið sé eitt í herbergi. Svona litlum börnum líður yfirleitt illa ef þau eru ein og geta fundið til mikils óöryggis. Sjö mánaða barn er akkúrat á versta stigi aðskilnaðarkvíða – það þýðir að fyrir því er foreldrið sem fer út úr herberginu horfið að eilífu. Það er ekki fyrr en um 10-12 mánaða aldur að barnið finnur út að þótt einhver fari þá komi hann til baka. Því má búast við að drengurinn eigi eftir að vera svona óhress með þetta í nokkrar vikur til viðbótar. Þið getið á hinn bóginn auðveldað ykkur öllum þetta með því að hafa ljós hjá honum (ef dimmt er í herberginu), láta hann hafa eitthvað traustvekjandi sem gjarnan minnir á ykkur (t.d. teppi sem þið notið venjulega við brjóstagjöf) og láta hann aldrei bíða eftir að þið sinnið honum. Ef þið sinnið honum strax og hann kallar minnkar gráturinn fljótlega því hann sér að hann getur treyst því að þið komið alltaf þegar hann þarf á ykkur að halda. Og athugið að þetta er ekki þrjóska – svona lítil börn hafa ekki vit á að vera þrjósk eða óþæg.
Vona að þetta gangi allt saman vel hjá ykkur.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir