Netframhjáhald, hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Ég er með smávandamál. Ég er búin að vera í góðri sambúð í 6 ár, aldrei verið neitt vandamál og rífumst aldrei (þrösum kannski einstaka sinnum). Við eigum 2 börn og erum rosalega góðir vinir, gerum mikið saman, eigum okkar áhugamál (sitthvort), kynlífið einstakt og hefur verið frá því við fórum að vera saman. Ég er alger nautnaseggur og við eyðum miklum tíma í okkar kynlíf, eiginlega fullkomið samband.

Vandamálið hér er ekki beint hann, það er meira ég, fyrir u.þ.b 1 og hálfu ári síðan komst ég að því að hann var búin að hanga óeðlilega mikið á unaðssíðum (þoli ekki klámsíðu orðið) á netinu og ég fór að njósna um hann hvað hann væri að skoða og brá heldur betur þegar ég sá að þetta voru bara myndir af ungum nöktum konum, myndir sem hann gæti alveg eins tekið af mér og hengt á skjáinn. Ég njósnaði um hann í nokkra mánuði og komst svo að því að ég varð bara meira og meira bitur yfir þessu. Ég ræddi þetta því við hann og sagði honum hvernig mér liði (sem var ömurlega) því allt sem hann væri að skoða á netinu gæti hann alveg fengið auðveldlega frá mér.

Ég gerði honum fulla grein fyrir því að ég er ekki nema 25 ára og ég missti allan áhuga á að fara með honum í bólið. Ég fór að finna allskonar afsakanir og hann fór að finna fyrir því. Þegar hann var svo farinn í vinnuna þá dró ég fram hjálpartækin og fékk mína útrás. Þegar hann fór svo að spyrja um þetta ég sagði honum að ég væri búin að missa áhugann á honum (sem fór alveg með hann) og hann lofaði að hætta þessu netrápi. Í framhaldi af því sagði ég honum að ég mundi hætta að njósna um hann sem og ég gerði.

Fyrir nokkrum vikum síðan vantaði mér upplýsingar um heimasíðu og brá heldur betur þegar ég sá nokkrar síður sem hann hafði farið á, svei mér þá er hægt að segja núna að hann hafi haldið sér „edrú” í 4 mán og ég treysti honum. En nú er ég aftur komin á sama stað, nú er áhuginn á honum aftur dottin niður og ég get hvorki gert honum né mér þetta. Ég er búin að reyna að gera allt sem í mínu valdi stendur til að líta framhjá þessu. Ég hef þó ekki rætt þetta við hann eftir að ég komst að þessu og nú er ástandið orðið þannig að ég þori ekki að tala við hann um þetta því ég er svo viss um að þetta endi allt með ósköpum og við slítum sambandinu. Mér finnst við vera búin að eyða það miklum tíma í þetta samband að ég er ekki alveg tilbúin að henda öllu frá mér og byrja upp á nýtt. Að mínu mati er grasið ekki grænna hinumegin. Mig vantar hjálp, er eitthað sem ég get gert til að öðlast áhugann aftur? Ég get ekki farið aftur út í það að biðja hann að hætta þessu og treysti honum ekki lengur.

Með fyrirfram þökkum um svör.

Svar:

Komdu sæl.

Ekki er ég nú alveg sammála því að vandamálið sé eingöngu þitt og enn síður að vandamál þitt sé það að þú þurfir að læra eitthvað sérstakt til að öðlast áhuga á manninum þínum aftur. Það er nokkuð ljóst að þú upplifir mikla höfnun og virðingarleysi frá honum og það er jú hann sem sýnir þér það. Hugsanlega hefur þú einnig eins konar upplifun af framhjáhaldi frá hans hendi.

Þitt vandamál er að þú gerir ekki nægilegar kröfur um virðingu frá honum og þú hefur ekki nægilega gott sjálfstraust. Þess vegna njósnar þú um hann í langan tíma (mér reiknast til allt upp undir ár) áður en þú talar við hann um þetta. Þess vegna verður þú bitur en ekki reið. Þess vegna segir þú honum að þér líði illa með þetta, en krefst ekki að hann hætti þessu. Þess vegna reynir þú að líta framhjá framkomu hans í þinn garð í stað þess að skella því framan í hann að hann sé að sýna þér virðingarleysi og höfnun og að þú hafir engan áhuga á að vera með manni, sem kemur þannig fram við þig.

Framkoma hans við þig er ekki í samræmi við það að hann elski þig og virði. Hún er miklu frekar niðurlægjandi og virðingarlaus. Þú verður auðvitað að gera kröfur um það að hann sýni þér ást og virðingu. Þú verður að láta hann vita að hafi hann þörf fyrir að koma svona fram við þig, geti hann átt sig og komið sér burt. Þú átt að sýna þá virðingu fyrir sjálfri þér að þú sættir þig ekki við svona framkomu með því að krefjast þess að hann hætti að óvirða þig og hafna þér í stað þess að biðja hann um það og líta á sjálfa þig sem vandamál fyrir það að geta ekki sætt þig við framkomu hans.

Hvers vegna ættir þú að samþykkja svona framkomu gagnvart þér? Hvers vegna ættir þú að pína þig til að halda í samband þar sem maðurinn þinn sýnir þér slíka óvirðingu og höfnun? Hvaða skilaboð ert þú að gefa manninum þínum með því?

Hættu að velta því fyrir þér hvernig þú getir öðlast áhuga á honum aftur. Þess í stað skalt þú gera kröfu um það að hann sýni þér að hann sé ástfanginn af þér og engri annarri og að hann sé þess virði að þú leggir lag þitt við hann. Að hann sé þess virði að hafður sé áhugi á honum. Hann hefur sýnt þér að hann er ekki þess virði að elska hann eða að treysta honum. Nú er það hans að sýna að þrátt fyrir allt sé hann þess virði að elska hann og það er hans að óska eftir endurnýjuðu trausti þínu til hans.

Þú verður sem sé að tala við hann um þetta og alls ekki biðja hann um að hætta þessu. Þú verður að vera ákveðin og örugg með sjálfa þig og gera á hann kröfur.

Gangi þér vel,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur