Neyðargetnaðarvarnapillan?

Spurning:
Sæl.
Ég er með tvær spurningar: Getur stúlka á aldrinum 14-16 ára fengið neyðargetnaðarvarnarpilluna án þess að foreldrar/forráðamenn hennar fái vitneskju um það? Ef hún er ólétt, hefur læknir hennar leyfi til að tilkynna forráðamanni hennar það, ber honum að gera það, eða hefur hann engum skyldum að gegna varðandi málið?
Með von um skjót svör, kveðja, K.

Svar:
Sæl.
Þetta er góð spurning og þörf.  Í barnaverndarlögum eru skýr ákvæði um tilkynningaskyldu.  Aftur á móti er það alltaf matsatriði hjá hverjum og einum hvað hann telur að eigi að tilkynna.  Sem svar við fyrstu spurningu er þetta þó á gráu svæði þar sem neyðargetnaðarvarnarpillan er ekki lyfseðilsskyld en er ráðgjafarskyld.  Þetta þýðir að stúlka eldri en 14 ára má kaupa þetta lyf rétt eins og önnur lyf sem eru ekki lyfseðilsskyld en verður að fá ráðgjöf í apóteki.  Sá starfsmaður verður því að vega og meta hvort ástæða sé til að tilkynna málið út frá fleiri þáttum, t.d. ef barnið kemur ítrekað, er í neyslu ofl. Börn undir 14 ára aldri verður alltaf að tilkynna þar sem það er refsivert að hafa samræði við barn undir þeim aldri  Sem svar við seinni spurningu þá ætti samkvæmt lögum alltaf að tilkynnast til foreldra/forráðamanna ef stúlka á þessum aldri er þunguð.  Best væri þó fyrir þig að hafa samband við Barnaverndarstofu og fá ráðgjöf þaðan.
Með kveðju

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur