Nikótíntyggjó og skokk á meðgöngu

Spurning:

Ég er ófrísk komin ca. 5 vikur á leið. Ég hef notað nikótíntyggjó töluvert
lengi. Er óhætt að nota það á meðgöngu?

Ég hef skokkað svona 3svar í viku undanfarna tvo mánuði. Er óhætt að halda því áfram?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Það verður að segjast að nikótíntyggjó er hundrað sinnum skárra en reykingarnar, en það er ekki án áhættu. Nikótínið dregur saman æðarnar í líkamanum, þar á meðal leginu, sem veldur því að minna blóðflæði verður í gegnum fylgjuna til barnsins. Það getur valdið fylgjuvandamálum eins og fylgjuþurrð, fylgjukölkun, fylgjudrepi og meðfylgjandi vaxtarseinkun og vandamálum hjá barninu. En þú sleppur þó við öll hin skaðlegu efnin sem fylgja reykingunum. Nikótíntyggjóið var náttúrulega hugsað sem lausn til að minnka smám saman nikótínþörfina. Það er því skynsamlegt hjá þér að tyggja sífellt sjaldnar og styttra í einu til að draga úr þörfinni. Löngunin í nikótín hverfur e.t.v. ekki alveg, en þá er bara að fara út að ganga/skokka, fá sér gulrót eða appelsínu eða drekka sítrónuvatn. Öll þessi ráð hafa gefist reykingamönnum vel þegar löngunin grípur þá. Það væri óvitlaust fyrir þig að skoða vefsíður þær sem eru fólki til hjálpar við reykbindindi, t.d.  www.reyklaus.is og www.landlaeknir.is
Hvað varðar skokkið þá ætti þér að vera óhætt að skokka eitthvað fram á meðgöngu ef þú gætir þess að drekka nógan vökva, helst vatn, og ofhitna ekki. Mikil og ströng líkamsþjálfun er hins vegar ekki heppileg á meðgöngu vegna þess að þá getur blóðflæðið minnkað til legsins. Lagt saman við nikótínnotkun, getur það skipt verulegu máli fyrir barnið. En hófleg líkamsrækt er af hinu góða og ef þú stundar hana í stað nikótínnotkunar er það allra best.
Óska þér svo bara til hamingju með þungunina.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir