Niðurgangur – aukaverkun?

Spurning:
Ég hef haft niðurgang í um mánuð núna – ekki kannski pípandi á hverjum degi en hægðirnar eru samt ansi þunnar og ekki eins og þær ,,eiga“ að vera. Ég fæ eins konar krampatilfinningu í ristilinn og þarf þá að fara beint á klósettið, sem er skiljanlega ekki mjög spennandi og eru hægðirnar ljósar og svolítið slímlegar. Þessu fylgir nokkuð loftgangur og hljómfagurt garnagaul, auk áðurnefndra krampaverkja. Ég er búin að vera á Zoloft í tæpa 3 mánuði og veit að niðurgangur getur verið ein af aukaverkununum en þess vegna hef ég ekki farið til heimilislæknis. En er alveg eðlilegt að aukaverkun byrji svona seint og er þetta ekki að verða langur tími?
Takk fyrir, ein með magaverk

Svar:

Niðurgangurinn sem þú talar um gæti sannarlega verið aukaverkun af Zoloft. Þar sem hann hefur staðið yfir svona lengi er full ástæða fyrir þig að tala við lækninn. Viðvarandi niðurgangur getur leitt til ofþornunar og skorts á nauðsynlegum vítamínum og næringarefnum. Á hinn bóginn er ekki ráðlagt að hætta skyndilega á Zoloft og alls ekki nema í samráði við lækni.
Ég hvet þig því eindregið til að fara sem fyrst til læknisins og ræða þetta við hann.
 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur