Notkun lyfs

Ég er með alvarlega beinþynningu, samfall í hryggjarliðum og tek inn lyf, sem heitir Ostacid, einu sinni í viku. Fyrir skömmu heyrði ég um konu í svipuðu ástandi, sem tók inn þetta sama lyf, en mun vera hætt því núna og fær lyf í fljótandi formi, (sprautu) tvisvar á ári, sem á að gera sama gagn. Haft var eftir henni að verkunin væri betri með sprautunum. Kannist þið við þetta?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Þegar læknar ákveða meðferð eru þeir að horfa til margra ára og er það einstaklingsbundið hvaða lyf er valið. Það eru ekki einungis niðurstöður beinþéttnimælingar, þ.e. beinþéttnigildin, sem ákvaðra um lyfjameðferð, heldur einnig aðrir áhættuþættir, s.s. byltur á síðustu mánuðum, langvinnir sjúkrómar,langtímameðferð með sykursterum (prednisolon), snemmkomin tíðahvörf (fyrir 45 ára aldur), grannholda líkamsbygging, að móðir viðkomandi hafi fengið beinþynningarbrot og hvort viðkomandi einstaklingur hefur sjálfur beinbrotnað. Þó að þetta lyf henti þessum einstaklingi þarf það alls ekki að henta öðrum.

Ég myndi ráðleggja þér að ræða þetta við lækninn þinn, fá skýringar afhverju hann velur töflumeðferð í stað lyfs í fljótandi formi. Læt fylgja með slóð á rannsókn, þar sem borin er saman töflumeðferð og lyfjameðferð í æð. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að það er ekki marktækur munur á meðferð en segja jafnframt að það væri kannski gott að gera svona rannsókn aftur og hafa stærri hóp af sjúklingum og yfir lengra tímabil.

Vona að þetta svari einhverju fyrir þig og gangi þér vel.

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4635316/

 

Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur