Nýfætt í flug?

Spurning:
Mig langar til að forvitnast um hvort fljúga megi með eitt nýfætt á milli landa, eða hvort það þurfi að ná ákveðnum aldri til að fá að fara í loftið, ef svo er þá langar mig til að vita hvers vegna, ef þið getið verið svo vinsamleg að aðstoða mig

Kær kveðja utanlandsfari

Svar:
Það eru ekki til neinar reglur um hvenær má ferðast með börn eða hvaða ferðamáti skuli valinn. Það er foreldranna að ráða því. Stærsti gallinn við að ferðast með svona lítið barn er hversu óvarið það er gagnvart sýklum frá ókunnu fólki í stórri flugvél og í flughöfnum heima og erlendis. Sé það á brjósti fær það þó einhverja vörn og ef sæti þess er nær glugga en gangi er það mögulega betur varið. Barnið þarf vitaskuld að vera í viðurkenndum öryggisbúnaði, bundið í sæti vélarinnar í barnabílstól, en jafnframt verður að vera hægt að liðka það aðeins og skipta á því á langri flugferð. Láttu flugfélagið því vita að þú sért með nýfætt barn þegar þú kaupir miðann. Þér er þá skaffað sæti með betra plássi en ella.

Góða ferð.
Dagný Zoega, ljósmóðir