Spurning:
Ágæti viðtakandi.
Smá vangavelta hjá mér. Er búinn að taka hjartamagnýl 75 mg í nokkra daga (ekki skv. læknisráði) en hef jafnframt verið að nota Herbalife fæðubótarefni. Eitt af þeim er Herbalifeline belgir (fish oil) og á þeim er viðvörun/athugasemd. Fólk er hvatt til að hafa samráð við lækni, ef það er að taka innn einhver blóðþynningarlyf. Belgirnir innihalda Omega3 fitusýrur og jafnframt jurtaolíur sem lágmarka eftirbragð. Ég er 54 ára (87kg) og er að taka inn LOPRESS 50mg vegna háþrýstings. Blóðfitumæling kom vel út fyrir um ári síðan hjá Hjartavernd. Er þetta ósækileg samsetning lyfja og fæðubótaefna? Þakka góð svör (fyrirfram).
Svar:
Ómega 3 fitusýrur og acetýlsalisýlsýra (Magnýl, Hjartamagnýl) draga bæði úr blóðstorku og þannig hættunni á að fá blóðtappa. Oft er því varað við að nota þetta saman að staðaldri þar sem hætta er á að um of dragi úr blóðstorku með viðeigandi blæðingarhættu. Læknir er betur í stakk búinn til að meta hvort þessi hætta er raunveruleg fyrir hvern einstakling. Spurningin er líka hvort ekki sé nóg að nota annaðhvort.
Ekki á að vera nein hætta á milliverkun milli lósartan (Lopress, Cozaar, Cozaar comp.) og þessara lyfja/fæðubótarefna.
Ég myndi því mæla með því að þú notir annaðhvort Ómega-3 fitusýrurnar eða Hjartamagnýl, ekki hvorutveggja. Næst þegar þú þarft að ræða við lækninn til að fá blóðþrýstinginn mældan og Lópress lyfseðilinn endurnýjaðan, skaltu ræða þetta við hann. Hann getur betur metið út frá þínu líkamlega ástandi hvort óhætt sé fyrir þig að nota hvorttveggja í einu.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur