Spurning:
Sæl.
Mig langaði til að koma með fyrirspurn um nokkuð sem fer ógurlega í taugarnar á mér og það er óæskilegur hárvöxtur. Ég er með hárvöxt upp að nafla og í kringum geirvörtur og einnig smá á milli brjósta. Flest þessara hára eru fíngerð en geta orðið nokkuð löng, en sum þeirra eru mjög gróf og dökk. Ég held þessu í skefjum eins og er með því að plokka þau hár sem eru mest áberandi, en þetta tekur tíma og svo er þetta einfaldlega mjög óheillandi. Ég er 28 ára og hef verið á pillunni í mörg ár. Hvaða möguleikar eru fyrir mig? Ég vil helst ekki fara í rafmeðferð á snyrtistofu þar sem mér finnst þetta vera of viðkvæmt mál. Ég hef farið á laserstofu í viðtal og leist vel á það, en það eina var að meðferðin er rosalega dýr. Ég hef líka heyrt að hárvöxtur geti aukist við barnseignir og þar sem ég á eftir að eignast mín börn þá þætti mér súrt ef ég þyrfti aftur að fara í lasermeðferð eftir barnsburð. Eru til einhverjar aðrar leiðir?
Með fyrirfram þökkum.
Svar:
Komdu sæl. Þakka þér fyrirspurnina. Að plokka og/eða vaxa hár verður að vítahring. Það eykur bara hárvöxtinn og hárin verða grófari og etv. dekkri einnnig. Varanlega háreyðingu færðu með ljós-geisla meðferðinni – 80-90% varanleg eyðing á dökkum hárum eftir að meðaltali 8 meðferðir – það er sú meðferð sem þú varst væntanlega búin að kynna þér. Þó þú verðir ófrísk að meðferð lokinni á hárvöxtur ekki að koma aftur – þ.e. því sem búið er að eyða – nema ef enn eru til staðar liggjandi djúpt í húðinni óvirkir hársekkir sem geta tekið vaxtarkipp við hormónabreytingar sem verða á meðgöngu.
Bestu Kveðjur,
Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Laserlækningu