Óæskilegur og mikill hárvöxtur?

Spurning:
Daginn.
Mitt vandamál er óæskilegur hárvöxtur. Nú sé ég að áður hefur verið spurt um þetta efni, en aðstæður voru dálítið öðruvísi. Frá barnæsku hef ég verið of feit og fram að þeim tíma er ég fór í gastric bypass aðgerð í ágúst, náði ég yfir 160 kílóa þyngd. Ég er 28 ára gömul í dag.
Fyrir fimm árum síðan bað ég lækni sem ég var að vinna með (kvensjúkdómalæknir sem sérhæfir sig í innkirtlafræðum) að líta á mig og greindi hann mig með vægan hirsutismus, sennilega vegna offitu. Hann setti mig á Spirix, sem ég tók í tvö ár, og eftir það var ég á Yasmin í ár. Hvorugt virkaði. Nú hef ég lést um 25 kíló en ekkert lát er á þessum hárvexti. Um er að ræða gróf, dökk hár á höku og hálsi, frekar gróf og dökk hár á fótleggjum (þó ekki séu þau í neinu óeðlilegu magni, held ég), ég er með hár á stangli á brjóstum og upphandleggjum og meira að segja lítið hárvaxtarsvæði á ofanverðu baki. Að auki vaxa löng og frekar gróf hár frá nafla niður að kynfærum.
Ég hef prófað bæði heitt og kalt vax, háreyðingarkrem, plokkun, rafmeðferð á snyrtistofu (sem átti að stöðva hárvöxtinn en örvaði hann bara) og meira að segja hef ég í örvæntingu notað rakvélar. Ég sé á fyrri svörum hér á vefnum að ekki er mælt með neinum þessara aðferða, þar sem þær bjóða einungis upp á vítahring.
Augljóslega veldur þetta mér miklu hugarangri, enda hef ég ekki í hyggju að leggja fyrir mig starf í sirkus sem eitthvað skeggjað fyrirbæri. Mín spurning, svo ég dragi þessa ritgerð saman, er: Er eðlilegt að þessi hárvöxtur, sé hann vegna offitunnar, minnki ekki fyrr en ég léttist meira? Er óraunhæft að ætlast til að hann ætti nú þegar að vera að fara minnkandi? Hvaða og hvers konar lyf, ef einhver eru, er verið að gefa vegna hirsutismus? Er eina leiðin út úr þessum hárvaxtarvandamáli lasermeðferð?
Með fyrirfram þökk, Ein orðin leið á hárunum.

Svar:
Það er ekki ósennilegt að hárvöxturinn sé vegna offitunnar. Ég get ekki svarað því hvort þyngdartap eftir aðgerð kemur til með að draga úr hárvextinum eða hversu mikið en maður hefði þó vissulega búist við því. Það ber þó að hafa í huga að hár vaxa mjög hægt og ef aðgerðin var gerð í ágúst þ.e. fyrir aðeins 5 mánuðum og þyngdartapið kom síðan í kjölfarið þá er ekki við því að búast að maður sjái árangur fyrr en í fyrsta lagi núna og síðan í auknum mæli á næstu 6-12 mánuðum. Meðferðin við hárvexti sem tengist PCO er eins og þú nefnir: Yasmin eða Diane Mite, Spirix eða Glucophage allt eftir aðstæðum hverju sinni. Ef um óeðlilega mikinn hárvöxt er að ræða þarf að útiloka aðrar ástæður fyrir honum m.a. með því að mæla karlkynshormónið Testósteróne.

Kv.
Arna Guðmundsdóttir