Óþægindi eftir keisaraskurð?

Spurning:
Ég eignaðist barn með keisaraskurði fyrr á þessu ári.
Ég er nú loksins byrjuð að hreyfa mig aftur en skurðurinn er stundum að trufla mig. Ég fór Esjuna þegar dóttir mín var 5 og hálfs mánaða og þegar við komum efst í klettana og ég þurfti að taka stór skref þá fannst mér eins og eitthvað rifnaði. Þegar við komum upp settist ég niður og það var sárt. Sársaukinn dofnaði á meðan við löbbuðum niður en ég var samt pínu snertiaum (þar að segja í bumbunni fyrir ofan skurðinn). Einu skiptin sem ég finn fyrir skurðinum núna er þegar ég kem heim frá að hlaupa og sest niður. Ég vildi bara vita hvort þetta væri eðlilegt eftir 7 mánuði?  Ég hélt að þetta væri allt gróið fyrir löngu. Þetta er ekki óbærilegur sársauki heldur meira óþægindi.
Með fyrirfram þökk ein óþolimóð að verða aftur eins og hún var.

Svar:
Það er oft sagt að konur þurfi allt að ár til að jafna sig að fullu eftir eðlilega fæðingu – hvað þá stóra kviðarholsaðgerð eins og keisaraskurðurinn er. Eftir keisaraskurð myndast örvefur í innri lögum kviðarins og það er sjálfsagt hann sem þú finnur ennþá fyrir. Legið og þvagblaðran hanga þar í kviðarholshimnunum sem einnig eru saumaðar saman og það gæti einfaldlega verið að þú sért að leggja of mikið á vöðvana og himnurnar með hlaupunum. Reyndu að stunda frekar léttari leikfimi eins og sund og hjólreiðar meðan þú ert að jafna þig að fullu. Ef þér finnst þetta ekkert lagast láttu þá kvensjúkdómalækninn þinn líta á þig.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir