Óþægindi seinnihluta meðgöngu?

Spurning:
Sæl og blessuð Dagný!
Ég er komin 32 vikur á leið og er orðin dálítið þreytt. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að spyrja að þessu þar sem ég veit að flest öll ef ekki bara öll þau óþægindi sem ég finn fyrir eru eðlileg. En málið er að ég er komin með alveg hræðilega verki í rifbeinin. Fyrst voru þeir bara framan á ef ég sat mikið en núna eru þeir allan hringinn og alltaf, er ekki eitthvað sem hægt er að gera í þessu?
Ég er líka mjög oft með slæma verki í rófubeininu og get stundum hvorki gengið né setið vegna þeirra. Mjaðmirnar hafa líka verið að pirra mig en það er samt eiginlega bara á nóttunni og ég hef varla getað sofið fyrir verkjum. Ég ligg nefnilega alltaf á annarri hvorri hliðinni þar sem mér finnst óþægilegt að sofa á bakinu núna og veit ekki einu sinni hvort það má. Það sem er þó kannski hvað mest að pirra mig fyrir utan rifbeinin er það hvað ég á rosalega erfitt með að anda, ég hef reyndar alltaf fundið fyrir því þegar ég ligg en núna finn ég líka fyrir því þegar ég sit eða stend. Er eitthvað hægt að gera í þessu? Ég ætla líka að tala um þetta við ljósmóðurina í mæðraverndinni en ég á ekki skoðun næstu eina og hálfa vikuna og vil ekki vera að hringja ef engin ástæða er til. Mér finnst líka einhvern vegin auðveldara að kvarta þegar ég get bara skrifað allt niður:)
Og já tvennt enn, ég hef stundum verið að finna stingi niður í leggöngin þegar ég geng, og var að lesa það í annarri fyrirspurn að slíkt væri ekki eðlilegt svona snemma. Er það rétt? Ég hef líka verið með nokkuð slæma hægðatregðu og því reynt að taka mjólkursýrugerla (einhver mælti með því) drukkið sveskjusafa, borðað trefjar o.s.frv. en stundum virkar þetta ekki og ég þarf að rembast dálítið til að koma þessu út, um daginn fannst mér svo eins og það spýttist vatn út um leggöngin um leið og ég rembdist og því þorði ég því ekki meir. En eru einhverjar líkur á að þetta hafi verið legvatn? Fyrirgefðu langt bréf og of miklar upplýsingar en mig langaði bara að koma þessu frá mér og fá kannski góð svör.
Takk kærlega, kveðja ein sem er að fara á taugum
Svar:

Það er ýmislegt sem hrjáir konur á meðgöngu og greinilegt að þú hefur fengið þinn skerf. Líklegasta skýringin á þessum óþægindum í rifbeinunum er aukinn þrýstingur í kviðnum út frá stækkandi leginu og mýking á liðböndum vegna hormónaáhrifa sem einnig mýkja himnur og bönd milli rifbeinanna. Af sama meiði verkurinn í rófubeininu. Við slíku er fátt að gera en þó getur þú prófað að nota snúningslak í rúmið, hækka undir höfðinu þegar þú liggur og nota teygjustrokk utan um brjóstkassan. Ef þér finnst þú virkilega ekki ná andanum tel ég þó að þú verðir að fá aukaskoðun hjá ljósmóðurinni sem fyrst því andnauð getur verið merki um járnskort eða alvarlegri kvilla.

Varðandi hægðatregðuna er best að borða mikið af ávöxtum og grænmeti ásamt grófu kornmeti eins og haframjöli og rúgi. Einnig þarf að drekka mikinn vökva, helst vatn og forðast stemmandi drykki eins og te og kók. Svo er hreyfing nauðsynleg til að örva þarmastarfssemina – gott að fara í gönguferð eða sund á hverjum degi. Mér finnst ólíklegt að vatnið sem kom þegar þú rembdist hafi verið legvatn, mun líklegra að það hafi verið þvag eða leggangavökvi. Það borgar sig ekki að rembast mikið því það setur svo mikið álag á grindarbotninn og getur valdið gyllinæð. Reyndu frekar að fá hægðirnar mjúkar og fara á klósettið þegar þér er orðið almennilega mál.

En eins og ég segi þá skaltu frekar fá að koma fyrr til ljósunnar þinnar en að vera að velkjast heima ósofin og óörugg.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir