Spurning:
Ég á við óeðlilegan hárvöxt í andliti að stríða, og með óeðlilegum þá á ég við skeggvöxt, grófa skeggrót sem er bæði á vöngum og höku.
Ég verð að segja að þessu fylgir mikil andleg vanlíðan og mér finnst ég hafa mætt miklu skilningsleysi hjá þeim læknum sem ég hef rætt við. Kannski það sé vegna þess að þeir eru allir karlmenn sem raka sig jú flestir daglega og finnst það sennilega ekkert tiltökumál. Ég er hinsvegar 31 árs gömul kona sem þarf að raka mig annan hvern dag! Ég er satt að segja orðin ansi örvæntingafull út af þessu, hef reyndar skrifað ykkur áður án árangurs, en núorðið get ég ekki hugsað mér að fara með þetta viðkvæma mál enn á ný til nýs læknis, mér finnst satt að segja mjög mikil auðmýking í því að „safna skeggi“ til að gera þeim ljóst hversu mikið þetta er.
Með fyrirfram þökk.
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Það kemur mér ekki á óvart að þú sért orðin verulega þreytt á þessu hvimleiða vandamáli og að vanlíðanin sé gífuleg. Skeggvöxtur í andliti er jú ekkert sem konur geta eða eiga að sætta sig við í dag. Það er alltaf erfitt að gefa greinargóð svör án þess að hafa allar upplýsingar og gott hefði verið að vita um hárvöxt annarsstaðar á líkamanum, hvort þú ert að taka einhver lyf, hvort þú hefur orðið ófrísk og hvort blæðingar þínar eru reglulegar, en allt getur þetta haft áhrif. Ástæður fyrir óeðlilegum hárvexti í andliti kvenna geta verið fjölmargar og að hluta til er það arfbundið hversu þéttur hárvöxtur kemur til með að vera, í þessu tilviki sést þetta ástand þá hjá öðrum fjölskyldumeðlimum. Allt lífið eru svo breytingar á líkama okkar sem hafa áhrif á hárvöxtin. Við kynþroska verða hár á ákveðnum stöðum á líkamanum grófari og dökkna vegna framleiðslu á androgeni sem er karlhormón, en er við eðlilegar aðstæður til staðar í kvenlíkamanum í litlu magni, hárvöxtur eykst svo gjarnan með aldrinum. Þegar kemur á breytingarskeiðið breytist hlutfall estrogens og androgens sem getur haft í för með sér frekari hárvöxt. Það sem kemur fyrst upp í huganner ástand sem kallast Hirsutismi sem einkennist af stækkuðum hársekkjum og hárin dökkna og er dreifingin sú sama og sést hjá karlmönnum. Það er hárvöxturinn í andlitinu sem veldur hvað mestum óþægindum. Ástæðan er aukin framleiðsla á karlhormóninu androgeni og geta ástæðurnar verið arfbundnar, ýmis lyf geta valdið aukinni framleiðslu á androgeni eða sjúkdómar. Framleiðsla á androgeni hjá konum er fof. bundin við eggjastokka og svo í nýrnahettunum sem staðsettar eru fyrir ofan nýrun. Til að mæla gildi karlhormóna er nóg að gera einfalda blóðprufu. Ég mæli því eindregið með að þú hafir samband við heimilislækninn þinn sem myndi þá taka nákvæma sjúkrasögu og gera þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að finna ástæðuna fyrir þessum aukna hárvexti.
Meðferðarmöguleikar eru ýmsir. 1. Ef um aukinn hárvöxt af völdum aukinnar framleiðslu androgena er að ræða eru til lyf sem hafa hjálpað. Notaðar eru getnaðarvarnartöflur sem kallast Diane-Mite og innihalda efni sem hindrar framleiðsu androgena og stuðla þannig að minnkuðum hárvexti. Einnig er notað lyf sem kallast Spironolacton og er þvagræsilyf, en hindrar einnig framleiðslu á androgeni í líkamanum.
2. Á þessu ári (ég held í júlí) kom á markað í Ameríku krem sem kallast Vaniqu og inniheldur efni sem kallast eflornithine hydroclorid og hefur skilað góðum árangri við meðferð við hárvexti í andliti. Kremið er borið á tvisvar á dag og árangur kemur fram eftir um 6–8 vikur. Kremið þarf að nota stöðugt og hverfur virknin á 6–8 vikum ef notkun þess er hætt. Þetta krem er ekki á markaði hér á landi í dag, en spurning hvort það verður ekki í nánustu framtíð.
3. Eyðing hárvaxtar með rafmagni er mikið notuð í dag. Aðferðin er sársaukafull og getur þurft að framkvæma nokkrum sinnum, en til að minnka sársaukann hafa tannlæknar aðstoðað með því að deyfa svæðið áður en aðgerðin er framkvæmd.
4. Leysermeðferð er það sem ég myndi kannski helst mæla með. Meðferðin er sársaukalítil og ekki eins tímafrek og háreyðing með rafmagni og hefur skilað mjög góðum árangri. Í dag eru það tveir aðilar að mér vitandi sem geta veitt slíka meðferð, Leysimeðferð, Laserlækning ehf. í Domus Medica s. 563–1070 og kostar viðtalstíminn þar 2.500 kr. og Húðlæknastöðin s. 520-4444 en þar kostar viðtalstíminn 3.000 kr. Ég ráðlegg þér eindregið að skoða þennan möguleika.
Gangi þér vel,
Kveðjur,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir