Of þröng forhúð?

Spurning:
Ég er með smá vandamál, sem ég þori eiginlega ekki að tala við neinn sem ég þekki. Málið er það að þegar ég er með stinningu þá er forhúðin of þröng, þetta hefur valdið svo miklum sársauka ef ég reyni að hafa samfarir að ég verð að gefast upp eftir smá tíma… en eins og ég segi, þá þori ég ekki að tala við neinn um þetta… plís ef þið getið hjálpað mér þá yrði ég ánægðastur í heimi!!!

Svar:

Sæll vertu!
 
Það er nokkuð algengt að strákar á þínum aldri lendi í þessu þegar þeir eru að byrja að stunda kynlíf eða hafa samfarir. Um er að ræða forhúðarþrengsli (forhúðin gefur ekki nægilega eftir) þannig að fremsti hluti forhúðar er of þröngur fyrir kónginn. Misjafnt er hversu þröng forhúðin verður. Stundum getur forhúðin rifnað ef átök verða of mikil eða hálfpartinn fest aftan við kónginn svipað og rúllukragapeysa sem ekki er hægt að draga upp fyrir höfuð. Þetta vandamál er auðvelt að laga með lítilli skurðaðgerð, sem yfirleitt er gerð af þvagfæraskurðlæknum, en stundum er nægilegt að bera sterakrem á forhúðina í nokkrar vikur. Flestir strákar á þínum aldri kjósa aðgerð, en læknirinn sem þú ættir að leita til hið fyrsta getur áreiðanlega ráðlagt þér í þeim efnum.
 
Með von um góðan bata,
 
Valur Þór Marteinsson, þvagfæralæknir