Spurning:
Sæl.
Ég hef áhyggjur af syni mínum sem er 8 ára, hann er of þungur. Ég ætlaði með hann á námskeið hjá Gauja litla en hann neitar alfarið að fara. Hvernig get ég hjálpað honum að grennast eða komið í veg fyrir að hann fitni. Mig vantar góð ráð. Ég hef lesið greinina: Hvers vegna verðum við of feit?
Ein áhyggjufull
Svar:
Sæl
Þegar verið er að takast á við offituvandamál hjá ungum börnum þá er yfirleitt besta leiðin að reyna að halda núverandi þyngd og leyfa þeim að "stækka upp í kjörþyngd". Ég myndi ráðleggja þér að byrja á því að skoða heimilið. Hvernig er fjölskyldan að borða? Hvernig mjólk er barnið að drekka? Eftir þriggja ára aldur þurfa börn ekki á eins mikilli fitu að halda og áður og fæði þeirra ætti að fara líkjast fæði fullorðinna hvað varðar fituneyslu. Léttmjólk eða jafnvel fjörmjólk og undanrenna ætti að vera notuð til drykkjar. Hvað er hann að drekka þegar hann er þyrstur? Vatn er besti svaladrykkurinn. Ef barnið er að drekka mjólk, djús, safa eða gos við þorsta þá er hætta á að orkuinntakan verði of há. Skoðaðu hverja máltíð fyrir sig. Hvað er í matinn? Borðar fjölskyldan grænmeti með mat? Eru ávextir á boðstólnum? Hvað er boðið upp á með kaffinu? Kex og kökur eru mjög orkuríkar fæðutegundir og ætti að takmarka neyslu á þeim. Hvernig eru reglur varðandi sælgæti og gos? Ekki hafa það þannig að á laugardögum sé matnum skipt út fyrir nammi – takmarkaðu magnið sem barnið fær. Skoðaðu hvað þú ert með í matinn og hvernig þú ert að elda. Hafðu soðinn eða ofnbakaðann mat í stað þess að steikja og notaðu eins litla feiti við matargerð og þú kemst af með. Foreldrarnir verða að vera fyrirmyndirnar – þið ráðið hvað er keypt inn á heimilið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að 8 ára barn fari á sérfæði (nema ástandið sé orðið mjög slæmt) – öll fjölskyldan verður að hjálpa til og temja sér hollt mataræði.
Þó það sé ekki mitt svið að tala um hreyfinguna þá langaði mig að koma með einn punkt varðandi hreyfinguna. Ef hann vill ekki fara á námskeið, reyndu þá að auka hreyfinguna hjá honum til dæmis með því að fara með honum út að ganga (t.d. að skoða eitthvað), út í fótbolta í garðinum, í sund, eða bara hvað sem er. Foreldrar hafa líka gott af hreyfingunni og börnunum finnst gaman að gera eitthvað með þeim.
Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur