Spurning:
Sæl Ágústa.
Ég er 17 ára strákur sem er of þungur/feitur. Ég borða mikið nammi og drekk mikið kók. Ég get ekki hætt að borða nammi eða drekka kók, ég finn mér alltaf einhverja afsökun til að fá mér nammi.
Hvað get ég gert við þessu? Ég verð að léttast, mér líður illa svona. Hef lítið sem ekkert sjálfsálit og er mjög óöruggur með mig, en það kemur sér mjög illa í framhaldsskóla.
Ég er mjög hræddur við að fara í svona líkamsrætarstöðvar
eða sund því ég skammast mín mjög fyrir líkama minn. Er eitthvað sem að ég get gert til að ná þessu í burt sem fyrst? Ég
held að ég þyrfti einhverskonar aðhald. Meira en bara sjálfsagann einan??
Geturðu hjálpað mér eitthvað með þetta???
(Er 82kg og ca 170-175 cm á hæð)
Kær kveðja.
Svar:
Sæll.
Það er alveg ljóst að þú verður að gera beytingar á neysluvenjum þínum ef þú vilt létta þig. Líklega er besta leiðin fyrir þig sú sem þú nefnir, að fá gott aðhald til að hjálpa þér að gera breytingar. Ég mæli með t.d. einkaþjálfun eða ráðgjöf hjá næringarfræðingi eða sálfræðingi.
Það er átak að gera breytingar á mataræði og byrja að hreyfa sig reglulega en ef löngunin er nógu sterk til að að ná árangri er hægt að standast freistingarnar. Byrjaðu á að skipta yfir í diet drykki og settu þér markmið um að í þessari viku ætlar þú að borða ekkert sælgæti annan hvern dag. Í næstu viku lætur þú líða tvo sælgætislausa daga og leyfir þér smá „nammi“ þriðja daginn og svo framvegis. Eftir nokkrar vikur verður þú þá búinn að venja þig á að borða sælgæti aðeins 1 dag í viku. Svo þarftu að byrja að hreyfa þig, byrjaðu á að hjóla eða ganga í 20 mín á dag og auktu það smám saman, 25 mín á dag næstu tvær vikurnar og svo 30 mín á dag þriðju og fjórðu vikuna og svo koll af kolli eftir því sem þrekið eykst. Svo getur þú farið að bæta við styrktarþjálfun s.s. armbeygjum, hnébeygjum og kviðæfingum. Með þessum hætti ferð þú smátt og smátt að sjá árangur.
Mundu að ef þú svindlar næst enginn árangur þann daginn en þá máttu alls ekki leggja árar í bát heldur halda ótrauður áfram næsta dag. Þegar þú ferð að sjá árangurinn þá er ég viss um að löngunin í sætindi minnkar því þá sérðu að það er ekki þess virði að troða sig út af hitaeiningaríku draslfæði og vera svo óhamingjusamur og líða illa út af aukakílóunum. Hófsemi í neyslu og regluleg hreyfing skilar sér í heilbrigðum líkama og góðu jafnvægi í sálarlífinu.
Gangi þér vel.
Kveðja, Ágústa Johnson.