Of mikið járn í blóðinu?

Spurning:
Er til sjúkdómur þar sem of mikið járn er í blóðinu?
Hvar get ég lesið um það?

Svar:
Hemochromatosis heitir sá sjúkdómur þar sem upptaka járns úr meltingarvegi
er of mikil. Með tímanum leiðir þetta til þess að of mikið járn safnast
fyrir í líkamanum og hleðst upp í hinum ýmsu líffærum. Getur það þá líka
leitt til truflana í starfsemi þessara líffæra og einkenna hjá sjúklingnum.
Þessi einkenni eru misáberandi og koma yfirleitt ekki fyrr en eftir 40 ára
aldur og oft seinna hjá konum, þar sem þær tapa járni með blæðingum, þungun
osfrv. Helstu einkenni má nefna slappleika og þreytu (hjá 75% sjúklinga),
dekkri húðlitur (vegna upphleðslu járns í húð), sykursýki (upphleðsla járns
í briskirtli), liðverkir, minnkuð kyngeta og hjartsláttartruflanir.
Hemochromatosis er oftast ættgengur sjúkdómur og meðferðin er fólgin í
endurtekinni blóðtöku en með henni er hægt að losa líkamann við járnið.
Mikilvægt er að tala við heimilislækni ef grunur er um ofhleðslu á járni.
Hann mun þá sjá um að staðfesta þann grun og hvort meðferðar er þörf eða
ekki.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um sjúkdóminn á vefnum en þó tel ég
enn mikilvægara að tala við heimilislækni eða sérfræðing í blóðsjúkdómum.

http://www.uwgi.org/hemochromatosis
http://www.nlm.nih.gov/medlineplus

Kveðja, Margrét B. Andresdóttir
læknir Hjartavernd