Of sein í tíðahringnum, hvað er til ráða?

Spurning:

Kæri Arnar.

Ég er 18 ára gömul og nýbyrjuð í sambandi. Ég átti að byrja á blæðingum fyrir tveimur vikum síðan. Ég er búin að taka tvö þungunarpróf en ekkert hefur komið fram. Það hefur aldrei liðið svona langur tími hjá mér áður (mest 3-4 dagar). Hvað er eiginlega að hjá mér? Er ekki á pillunni (hætti á henni síðast í febrúar) en ætlaði að byrja aftur núna er það óhætt?

Kveðja.

Svar:

Sæl.

þú ert vonandi ekki þunguð þar sem tvö þungunarpróf hafa verið neikvæð. Passaðu þig vel í 14 daga og gerðu þá aftur þungunarpróf. Sé það líka neikvætt, máttu byrja á pillunni þó svo blæðingar hafi ekki komð. En gættu þess að hún er ekki örugg fyrr en eftir 14 daga og best væri að gæta sín fyrsta tíðahringinn.

Gangi þér vel,
Arnar Hauksson dr. Med.