Spurning:
Sæll.
Mig langar til þess að kanna það, hvort hægt sé að fá svar við
því hvaða þýðingu það hefur, þegar hjartasérfræðingur segir við sjúkling –
Þú er með of stórt hjarta. Ekki hættulega stórt, en ívið of stórt. Er það
einhver möguleiki?
Er einhver sérstök hegðun, lífstíll, mataræði sem þeim sem eru með of stórt
hjarta er ráðlögð? Hver eru helstu einkennin sem koma fram við það að
hjarta reynist of stórt? Hvað ber helst að varast o.s.frv.
Með fyrirfram þakklæti.
Svar:
Sæl.
Margs konar álag getur leitt til þess að eitt eða fleiri hólf hjartans
stækka eða hjartavöðvinn þykknar. Algengar orsakir eru hækkaður
blóðþrýstingur um lengri tíma, lokuþrengsli eða lokuleki, afleiðingar
kransæðasjúkdóms o.fl. Slík stækkun er viðbragð eða svörun við álagi og upp
að vissu marki gerir stækkunin hjartanu kleift að auka afköst. Ef stækkunin
fer yfir ákveðið mark dregur hins vegar úr afköstum og hjartastækkun getur
verið eitt af einkennum hjartabilunar. Ef stækkun á hjarta greinist við
líkamsskoðun eða röntgenmyndatöku er mikilvægt að grafast fyrir um orsakir
hjartastækkunarinnar. Miklar upplýsingar fást með rannsókn sem nefnist
hjartaómun. Með þeirri aðferð er unnt að mæla stærð einstakra hjartahólfa
og þykkt og samdráttargetu hjartavöðvans og meta hjartalokurnar. Meðferð
eða önnur viðbrögð ráðast síðan af því hversu mikil hjartastækkunin er,
hvaða hlutar hjartans eru stækkaðir og hver orsökin er.
Með kveðju,
Guðmundur Þorgeirsson, hjartalæknir.
Situr í stjórn Hjartaverndar.