Of vandræðilegur til að leita mér hjálpar

Hæhæ,

Ég veit ekki alveg hvert ég á að snúa mér í þessu máli – ákvað að senda á doktor.is til að fá smá ráðleggingar.

Málið er að ég held að ég sé með gyllinæð – eða a.m.k. eitthvað sem líkist því eða tengist.

Ég er EKKI sjá neitt blóð í saur eða þegar ég skeini mér heldur lísir þetta sér í miklum kláða – ég hef fengið EXEM áðaur sem krakki og kláðinn minnir frekar á einsog ég sé með EXEM nálægt endaþarmi.

Ég hef verið að bera á mig Aloe Vera krem sem hjálpar mikið við kláðan. Ég finn mest fyrir þessu á næturnar.

Einsog ég sagði þá er ekki blóð í saurnum – EN ég hef tekið eftir því að ég fæ blóð á pappírinn ef ég er búinn að skeina mér mikið, þá er einsog að það opnast eitthvað.

Ég er búinn að googla þetta og eina sem mig finnst passa er eitthvað sem kallast Anal Fissure – einsog það séu rispur við endaþarm.

Eruði með einhver ráð sem ég get gert til að laga þetta? þetta hefur verið í gangi í þónokkuð langan tíma núna.

 

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

  • Gyllinæð er ein ástæða fyrir kláða í endaþarmi – en þá eru það bláæðar í endaþarmi sem bólgna upp og getur það valdið kláða og brunatilfinningu. Góð ráð við gyllinæð er að drekka vel af vatni á hverjum degi, og borða trefjaríkan mat (gróft brauð, hafragraut, hnetur, fræ), þvo vel eftir hægðalosun og jafnvel fara í sturtu og skola vel svæðið en ekki nota mikið af sápu því það þurrkar upp húðina og veldur kláða.
    Hægt er að fara í apótek og kaupa stíla+krem við gyllinæð en þú gætir fengið líka símatíma hjá lækni og rætt við hann í gegnum síma ef þér finnst of vandræðalegt að hitta lækni. Gætir byrjað á því.

 

  • Ef þú heldur að þetta sé „Anal Fissure“ – sem er þá bara litlar sprungur í endaþarmi þá líklegast hefur það komið vegna þess að þú hafir verið með harðlífi, langvinnan niðurgang, sáraristilbólgu (IBD) eða Crohn‘s. Þú gætir prufað að setja AD-krem, það mýkir húðina og græðir. Byrjar á að setja krem kvölds og morgna á hreint svæðið.
  • Þetta gæti einnig verið af því þú hefur ekki hreinsað nógu vel eftir hægðalosun – ágætt að þvo vel eftir hægðalosun en ekki þurrka of mikið það getur valdið kláða líka.
  • Sveppasýking gæti líka valdið kláða í endaþarmi. En það er algengara í börnum en fullorðnum.
  • HPV veiran gæti valdið kláða ef þú ert með hana – þá eru það vörtur sem geta verið í kringum kynfæri og dreift sér i kringum endaþarm líka.
  • Njálgur getur líka valdið kláða í endaþarmi – þá er kláðinn oftast á kvöldinn þegar líkaminn er kominn í ró. Þá fara ormarnir af stað og verpa eggjum utan um endaþarminn (oft í rákirnar í endaþarminum). Njálgur smitast auðveldlega – oftast þar sem börn eru (leikskólar, skólar, íþróttir) með smituðum mat, rúmfötum, leikföngum, sandkössum ofl. Smitleiðin er þegar þú borðar eða andar að þér eggjum ormanna.

Núna mæli ég með að ef engin af þessum ráðum virðast hjálpa þér að þú nælir þér í símatíma hjá lækni og ræðir um þetta við hann.

 

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað.

Gangi þér vel,

Sigrún Eva Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur