Ofdrykkja og kynlífsvandi hjá körlum?

Spurning:
1) Er algengt eða vitað til að karlmenn (í sambúð) verði getulausir eftir að hafa stöðvað áralangan drykkjuferil? Ef svo er, er þetta tímabundið? Algjörlega einstaklingsbundið?

2) Dregur það ekki úr virkni Viagra, að karlmönnum finnist þeir þurfa að standa sig og gæti það haft öfug áhrif? Þarf ekki eitthvað annað að koma samhliða? T.d. áhorf á klámmynd eða eitthvað í þeim dúr? Athuga ber, að viðkomandi gæti haft einhverjar ,,skrúplur“ varðandi síkt áhorf, þar sem hann er ekki undir áhrifum vímugjafa.

Svar:
Þú spyrð fyrst hvort að karlmenn geti orðið getulausir eftir að hafa stöðvað áralangan drykkjuferil. (Ég geri ráð fyrir að þú eigir við stinningarvanda eða ristruflanir þegar þú notar hugtakið ,,getulaus“.) Fyrstu spurningu þinni er hægt að svara játandi því hluti karlmanna sem hættir að drekka eftir áralangan drykkjuferil virðist ekki ná sér á strik í þeim efnum. Í viðamikilli samantekt á kynlífsvanda meðal sautján þúsund karla sem áttu við alkóhólisma að stríða og höfðu hætt að drekka, kom fram að um 8% þeirra sögðust eiga við ristruflanir að etja. Nokkrum árum síðar átti um helmingur þessara karla enn við ristruflanir að etja. Hjá hinum voru ristruflanirnar tímabundnar og löguðust með tímanum. En hjá þeim körlum, þar sem ristruflanir voru orðnar langvarandi, hafa þær skýringar verið nefndar ofdrykkjan hafi náð að valda skemmdum á líffærum og þar með líkamsstarfssemi. Má þar nefna lifrarskemmdir sem truflað geta framleiðslu kynhormóna og skemmdir á miðtaugkerfi og eistum. Ofdrykkja getur líka haft þau áhrif að sjúkdómseinkenni annarra, undirliggjandi sjúkdóma versna svo sem ef um er að ræða sykursýki eða hjarta-og taugasjúkdóma. Síðan má heldur ekki gleyma að ofdrykkju getur fylgt óheilbrigður lífsstíll svo sem reykingar, óhollt mataræði og óhófleg streita. Að endingu má ekki gleyma því að þegar karlmenn byrja sína ,,edrúmennsku“ er stórt verkefni framundan hjá mörgum þeirra – að byggja upp traust að nýju með sínum maka og byggja upp eitthvað tilfinningalíf án deyfingar af völdum alkóhóls.

Hvað seinni spurninguna varðar er virkni Viagra fyrst og fremst háð því að karlinn sé orðinn kynferðislega örvaður (hvet ykkur til að lesa nánar um það í lyfjaupplýsingunum sem fylgja lyfjapakkanum). Ef karlinn þinn er að nota Viagra en áhrifin (virknin) virðast ekki koma fram sem skyldi þá er best að karlinn spyrji sig hvort hann sé graður eða ekki! Ef karlmaður sem gleypir Viagra töflu langar ekkert sérlega til að elskast og finnur þar með ekki fyrir neinni tilfinningalegri löngun eða tengingu við ástfélaga sinn í ástarleiknum gæti það verið ástæðan (eða a.m.k. það sem maður ætti að spyrja sig allra fyrst í leitinni að skýringum). En því miður eru ekki allir karlmenn tilbúnir að skoða þennan þátt og vilja allra helst hugsa um líkamann sem vélrænt fyrirbæri. Ég myndi bíða með klámmyndaáhorf og fyrst skoða hvort hann sé tilbúinn að viðurkenna hvenær hann langar og hvenær ekki, í stað þess að horfa til þess að hann eigi að geta haft stinnan lim. Stinnur limur er nefnilega alls ekki eini mælikvarðinn á hvort karlmanni langi til að hafa samfarir. Spurðu hvort honum langi og sýnið svarinu þá virðingu sem það á skilið!

Kveðja,
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, kynfræðingur