Ófrísk með æði fyrir vatnsklökum

Spurning:

Sæll.

Ég skrifa hér því ég er ófrísk og er með svokallað æði fyrir vatnsklökum ….. Ég var að spá að þar sem ég bryð þá jafn óðum, hvort það hafi einhver mikil áhrif á glerunginn á tönnunum …… eyðileggi hann eða eitthvað???

Svar:

Sæl.

Þegar hvað eina hart er brutt tanna á milli er jafnan nokkur hætta á að úr glerungi tannanna kunni að kvarnast og jafnvel á því að stöku tönn brotni. Ljóst er að við „æðið“ ræður þú illa en þú getur þó reynt að fara að með gát. Til huggunar get ég sagt þér af konu nokkurri sem sama „æðið“ greip og þig við hverja þungun sem alls urðu fimm að tölu. Í dag er hún svo hress að til vandræða horfir!

Gangi þér allt í haginn.

Ólafur Höskuldsson, barnatannlæknir