Ófrísk og að spekúlera í mataræði?

Spurning:
Kæri Doktor, Ég er nýorðin ófrísk og byrjuð að spekúlera í því mataræði og lífsstíl sem hentar bumbunni verðandi best. Ég er búin að vera að lesa mér til um mataræði á meðgöngunni á síðunni ykkar, og þar er lögð óskapleg áhersla á að hin verðandi móðir takmarki fituneyslu. Mér hefur hins vegar alltaf skilist að fita sé fóstrinu lífsnauðsynleg, því hún sé undirstaða heilbrigðs taugakerfis, og eins til að móðirin eigi feita mjólk eftir fæðinguna. Ég er ekki endilega að tala um að fara að leggjast í smjördolluna, en ætti ég t.d. ekki frekar að drekka léttmjólk en undanrennu?

Svar:
Sæl Hanna. Það er alveg rétt hjá þér að fita er nauðsynleg fóstrinu sem og að sjálfsögðu öllum lifandi einstaklingum á öllum aldri. Þegar talað er um að verðandi mæður takmarki fitu í fæðu er einfaldlega verið að hvetja þær til að fara ekki út í óhófsfituneyslu sem kann m.a. að ýta undir of mikla þyngdaraukningu. Það er þá fyrst og fremst verið að vara við óhófsneylsu á mjög feitum mat, svo sem feitum skyndibitamat, kartöfluflögum, tertum og súkkulaði en ekki hollustufæði eins og léttmjólk. Til gamans má geta að í Fréttablaðinu í dag (16. janúar 2003, bls. 6) er vitnað í breska rannsókn sem “gefur til kynna að konur sem borða fituríka fæðu á meðan á meðgöngu stendur geti aukið líkurnar á því að börn þeirra fái hjartasjúkdóma síðar á lífsleiðinni.”

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur