Spurning:
Ég er 39 ára og ég er að hugsa um að láta taka mig úr sambandi þar sem ég er hvort eð er að fara í gallsteinaaðgerð (sem verður framkvæmd einhvern tímann á næstu 3 mán.) Ég er á pillunni og mig langar til að vita hvort ég eigi að hætta að taka hana þegar ég er búin með mánaðarskammtinn, eða hvort það sé óhætt að halda áfram að taka pilluna þar til ég fer í aðgerðina. Einnig langar mig til að vita hvort það hafi áhrif á hormónakerfið ef ég læt taka mig úr sambandi. Gæti ég þurft að fara á einhver hormónalyf eins og þær sem eru á breytingaskeiðinu?
Með kveðju
Svar:
Kæri fyrirspyrjandi.
Úr því þú ert að fara í gallsteinaaðgerð mætti vel hugsa sér að þú yrðir tekin úr sambandi í sömu aðgerð. Hins vegar eru fleiri valkostir fyrir konur í dag en ófrjósemisaðgerð.
Ef þú ert á pillunni verður þú að segja skurðlækninum þínum frá því og það er hans ákvörðun hvort þú verður látin hætta að taka hana áður en þú ferð í aðgerðina. Almenna reglan er sú að láta alla sem fara í aðgerð sem krefst legu, hætta á pillunni. Nú orðið eru þessar aðgerðir svo stuttar og fólk fljótt á fætur aftur að það er mismunandi hvernig læknar hafa það með pillu-hvíldina. Oft er fólk látið halda áfram á henni, nema einhverjir áhættuþættir á blóðtöppum, aðrir en pillan, séu fyrir hendi. Þú tekur þessa ákvörðun með lækninum þínum.
Það á engu að breyta um hormónabúskap þinn þó svo þú farir í ófrjósemisaðgerð svo þú ættir ekki bara vegna þess að þurfa að fara að taka hormón. Slíka ákvörðun tekur þú ef og þegar einkenni breytingaskeiðs koma fram, eða ef tilefni er til að taka þau í fyrirbyggjandi tilgangi.
Gangi þér vel,
Arnar Hauksson dr. med.