Ófrjósemisaðgerðir á körlum

Spurning:

Mér þætti fróðlegt að sjá umfjöllun á vefnum ykkar um ófrjósemisaðgerðir á karlmönnum hérlendis. Hvaða skilyrði þarf maður að uppfylla til að mega gangast undir slíka aðgerð? Er hægt að tengja sáðrásirnar aftur síðar? Fylgja aðgerðinni einhverjar aukaverkanir? Er hægt að mæla með slíkum
aðgerðum sem getnaðarvörn fyrir menn sem ætla ekki að eignast börn næstu 10-15 árin?

Virðingarfyllst,

Svar:

Takk fyrir fyrirspurnina, það er alltaf gaman að sjá þegar þær koma fleirum en spyrjanda til góða. Varðandi skilyrðin er það sá skurðlæknir sem framkvæmir aðgerðina sem þú verður að ræða við. Það vantar í fyrirspurn þína hversu gamall þú ert, en þessar aðgerðir eru nánast aldrei gerðar á ungum mönnum og er helsta ástæðan sú að mjög erfitt er að tengja sáðrásirnar aftur og árangur af slíkum aðgerðum mjög lélegur. Því er ekki hægt að mæla með þessum aðgerðum sem getnaðarvörn nema fyrir karlmenn sem eru komnir af léttasta skeiði og eiga börn, en alls ekki er hægt að mæla með þessum aðgerðum fyrir menn sem hafa hug á að eignast börn í framtíðinni. Varðandi aukaverkanir, eru þær sambærilegar við allar aðrar aðgerðir, svæfingu fylgir alltaf ákveðin áhætta og aðgerðinni sjálfri hætta á blæðingum, sýkingum, bólgum og verkjum. Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja,

Sólveig Magnúsdóttir, læknir