Ofsakláði

Ofsakláði hrjáir konu – aldur 60 ára. Fær tilfelli tíð (tvisvar í janúar það seinna mjög slæmt – það versta). Þá bolnar húðin frá nafla og upp að hálsi og húðin verður mjög viðkvæm og öll líðan mjög slæm og í þessu tilfelli fór kláðinn í hendur í fyrsta skipti (núna í síðara tilfelli í janúar).
Hún býr erlendis er í sambandi við lækni, en þetta versnar alltaf og skelfilegt núna síðasta kast. Hefur meðul til að reyna að slá á þetta, sagt að þetta sé þrennskonar ofnæmi en hún er orðin hrædd um að það sé eitthvað meira að.

Nú spyr ég er þetta lýsing á ofsakláða

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina.

Já þessi lýsing gæti samræmst ofsakláða en þar sem ég hef ekki séð útbrotin og bólguna í húðinni að þá er erfitt að meta það að fullu.

Helsu orsakir ofsakláða geta verið ofnæmi af völdum fæðu eða lyfja, bakteríu- og veirusýkingar, ákveðnir sjúkdómar og kuldi.

Ofsakláði orsakast af því að mastfrumur í húð fara að seyta efnum, m.a. histamíni sem leiðir til kláða, bólgu og þessum upphleyftu roðahellum í húð.

Helsta meðferð er að greina orsökina sem virðist samkvæmt fyrirspurn þinni vera þrennskonar ofnæmi og reyna að forðast ofnæmisvaldana eins og hægt er. Gott að heyra að hún hafi lyf til þess að slá á einkennin. Aðalmeðferðin er að gefa andhistamín til þess að draga úr einkennum. Einnig er hægt að gefa stera og önnur sérhæfðari ofnæmislyf.  Ofsakláða getur í sumum tilfellum fylgt líkamleg vanlíðan eins og lið- og kviðverkir, bólga á iljum og lófum og hitavella.

Annars ráðlegg ég ykkur að leita til heimilis- eða ofnæmislæknis til frekara mats ef þið hafið áhyggjur af því að eitthvað annað gæti verið að valda þessu.

Gangi ykkur vel,

Auður Hávarsdóttir, hjúkrunarfræðingur