Oft reynt að hætta að reykja en ekkert gengur

Spurning:

Sæl Dagmar.

Ég er 35 ára húsmóðir og langar mikið til að hætta að reykja. Ég reyki u.þ.b. pakka á dag og hef gert í um 17 ár. Ég hef oft reynt að hætta en ekki gengið vel. Það sem hefur gert mér erfiðast fyrir er hvernig ég gjörsamlega umturnast í skapinu þegar að þörfin er mest, og mér finnst ég ekki hafa neina stjórn á mér. Á endanum hef ég alltaf gefist upp því að þetta er svo mikið álag á heimilið og börnin. Um leið og ég er búin að fá mér sígarettu er eins og allt loft sé farið úr mér og ég fæ mikinn móral. Mig langar óstjórnlega mikið til að hætta að reykja, en hvað get ég gert? Ég hef reynt nikótíntyggjó, plástra og munnstykkið og ekkert dugar. Fyrir fimm árum hryggbrotnaði ég (samfallsbrot) eftir fall af hestbaki. Á öðrum degi var ég látin fara framúr og labba smá með aðstoð göngugrindar. Klukkutíma seinna lét ég mig hafa það að fara aftur framúr og labba yfir í hinn endann á sjúkrahúsinu til að geta fengið mér smók, samt var ég með sterkasta plásturinn. Þetta kalla ég sjúkt í dag en þörfin var það mikil. Ég vona að þetta gefi þér einhverja hugmynd um hversu mikil fíkn er í mér. Ef þú hefur einhver ráð fyrir mig yrði ég mjög þakklát, því mig langar mjög mikið að hætta að reykja.

Kveðja,
ein með móral.

Svar:

Komdu sæl.

Þú gefur góða mynd af þinni fíkn. Ef þú notar engin þunglyndislyf eða ert flogaveik, er Zyban góður kostur fyrir þig. Heimilislæknirinn skrifar upp á það.

Þú tekur 1 töflu á dag í 3 daga og hættir að reykja um leið. Notar nikótínplástur (sterkasta) + tungurótartöflur. Á 4. degi tekurðu 2 töflur af Zyban. Eftir 2 vikur á Zyban hættir þú með nikótínplásturinn en hefur tungurótartöflurnar með, aðeins þegar þig langar mikið í smók.

Fyrstu 3 vikurnar geta verið erfiðar, því aukaverkanir af Zyban koma þá fram, en hverfa síðan. Þær eru munnþurkur, svefntruflanir og kvíði. Ef þú heldur það út þann tíma, verður líðanin mun betri og þú missir áhugan á tóbaki. Reiknaðu með að nota Zyban í að minnsta 3 mánuði. Annar kostur er meðferð gegn reykingum. Þú getur fengið upplýsinar um það hér ef þetta gengur ekki.

Gangi þér vel.
Dagmar Jónsdóttir, reykingaráðgjafi