Ofvirkir svitakirtlar: Hvað er til ráða?

Spurning:

Kæra Sólveig.

Ég er 16 ára unglingstúlka og á við smá vandamál að stríða. Málið er það að ég held að ég sé með ofvirka svitakirtla. Ég svitna mikið á fótum, undir handarkrikunum og í lófunum. Það fer mikið í taugarnar á mér að svitna svona mikið í handarkrikunum af því að ég get ekki gengið í þröngum bolum því að þá er strax kominn stór svitablettur (þótt að ég sé ekkert að hreyfa mig). Síðan er ég aldrei þurr í lófunum. Ég er alltaf blaut. Ég forðast það eins og ég get að taka í hendurnar á fólki. Ég veit það að mamma var líka svona blaut á höndunum þegar hún var yngri, en hún óx upp úr því. Er eitthvað sem ég get gert? Þetta hrjáir mig mjög mikið. Ég spurði einu sinni húðlækni hvort það væri eitthvað sem ég gæti gert. Hann ráðlagði mér það að setja svona krem sem maður setur á fæturnar til að stoppa svita á hendurnar, en það virkaði ekki.

Með ósk um svar.

Svar:

Það er leiðinlegt að heyra hvað þessi svitamyndun fer illa í þig. Það er óhjákvæmilegt að við svitnum, sviti er eitt mikilvægasta hitastjórnunartæki líkamans og auk þess losum við úrgang í gegnum svita. Það er mjög misjafnt eftir einstaklingum hversu mikið þeir svitna og hver samsetning svitans er sem svo aftur hefur áhrif á lyktina.

Það kallast óeðlilega mikil svitamyndun þegar einstaklingur svitnar mikið án þess að líkamleg áreynsla, andleg spenna eða hiti í umhverfi komi til. Það þarf þó alls ekki að þýða að eitthvað sé að. Sum lyf og ákveðnar fæðutegundir, t.d. kaffi og mikið kryddaður matur valda því að við svitnum meira. Breytingar eða truflanir á hormónastarfsemi valda því einnig að við svitnum meira. Það að svitna mikið á höndum og undir höndum bendir hinsvegar til þess að þessi svitamyndun geti verið tilfinningatengd og þá lítið við því að gera nema að slaka á og reyna að láta aðstæður hafa lítil áhrif á sig. Til er efni sem inniheldur Aluminium clorid og virkar það vel til að minnka svitamyndun. Þetta efni er að finna í flestum svitalyktaeyðum sem keyptir eru í lyfjaverslunum, en þarf að vera í styrkleika 20% svo nægjanleg virkni fáist. Ég veit til þess að þetta hefur verið til undir heitinu Driclor og ráðlegg ég þér að finna þetta og prófa. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum til hins ýtrasta og vera meðvitaður um að notkuninni getur fylgt erting á húð og útbrot. Ég er alveg viss um að þetta kemur til með að lagast með tímanum, en þangað til gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir