Spurning:
Þannig er mál með vexti að við hjónin eigum ofvirkan strák og viljum ekki setja hann á Rítalín því við erum ekki búin að gefast upp. Það er ekkert að honum heima, það heyrist ekkert í honum, hann lærir og leikur sér. Sem sagt ekkert mál, en er eitthvað órólegur í skólanum, ekki nógu góð einbeiting og órólegur í sætinu, en er samt með stuðning allan tímann. Svo heyrðum við um að það væri að koma annað lyf sem er ekki amfetamínskylt en væri með sömu virkni. Hafi þið eitthvað um það að segja? Og annað, ef hann er svona órólegur í skólanum og færi á Rítalín, myndi hann þá ekki fá útrás heima ef þessi pirringur er lokaður inni með lyfjagjöf?
Svar frá lyfjafræðingi:
Nýlega kom á markað hér á landi lyfið Concerta, sem inniheldur metýlfenídat í forðatöflum. Þetta er sama virka efnið og er í hinu margumtalaða Ritalin. Þetta er því skylt amfetamíni eins og Ritalin. Það sem þetta nýja lyf hefur fram yfir Ritalin er að það er langverkandi og virkar þannig allan daginn. Það hentar því vel þeim sem hafa þurft að taka Ritalin oftar en einu sinni á dag. Ekki hafa verið skráð önnur lyf hér við þessum sjúkdómum og ég hef ekki heyrt um önnur.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur
Svar frá sálfræðingi:
Það er algengt að börn með ofvirkni séu erfiðari í skóla en heima fyrir. Það kemur vegna þess að það er fastari rammi í skólanum heldur en á heimili. Einnig þurfa börnin meira úthald við verkefnavinnu í skóla en jafnframt eru færri aðilar til að sinna börnunum í skólanum. Fleiri þættir valda meiri óróleika hjá ofvirkum börnum í skólanum eins og t.d. truflun frá öðrum börnum. Á heimilinu eru bæði hlutfallslega fleiri að sinna barninu, þar er meiri ró og kröfur eru minni. Því er eðlilegt að barnið sé rólegra heima fyrir.
Með kveðju,
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
s:661-9068
Með von um að þessi svör komi sér vel.
Kv. Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur