Ógleði á 6. viku meðgöngu?

Spurning:
Er komin 6 vikur á leið af mínu öðru barni og fæ iðulega ógleðisköst, gjarnan á morgnana og svo seinni part dags og spurt er hvað sé til ráða. Hef tekið inn koffínátín og virðist það slá á ógleðina, en hvað er annað til ráða og er ásættanlegt að taka þetta sjóveikislyf (1 tafla á dag). Þætti vænt um að heyra frá ykkur hið fyrsta, því hver dagur er sem píslarganga þegar verkir eru sem mestir.

Svar:
Þú getur búist við að meðgönguógleðin haldi áfram fram á 12. til 16. viku meðgöngu. Þér er vissulega óhætt að taka koffínátín en ég skil vel að þú leitir annarra leiða til að draga úr ógleðinni. Margar konur hafa áður sent inn fyrirspurnir vegna meðgönguógleði því þetta er mjög algengt vandamál. Þú getur skoðað svörin á Doktor.is en hér koma helstu ráðin í hnotskurn:

Þar sem mikilvægast er að fá nægan vökva (vökvaskortur veldur meiri ógleði) er nauðsynlegt að finna eitthvað sem konuna langar virkilega í eins og léttkolsýrða ávaxtadrykki, þynntan eplasafa, orkudrykki án koffíns eða sítrónute. Það gerir ekkert til þótt drykkirnir innihaldi sykur – á þessum tíma veitir ekkert af smá aukaorku. Það er mikilvægt að drekka ekki mikið í einu, bara sopa af og til, þá verður þér síður óglatt. Forðastu kaffi, te, kóladrykki og feita mjólkurdrykki. Eins skaltu forðast að borða mikið í einu. Flestum konum með meðgönguógleði finnst líka vont að matur og drykkur sé bragðmikill. Feitur, kryddaður og brasaður matur veldur oft ógleði og uppköstum.
Leggðu heldur áherslu á léttmeti eins og bakaðan kjúkling eða fisk, hrísgrjón, pasta, brauð, salöt, grænmeti og ávexti. Það gefst mörgum konum vel að drekka engan vökva í klukkutíma fyrir og eftir máltíðir. Drekka heldur vel á milli máltíða. Svo eru ávextir oft góðir og mörgum konum finnst gott að narta í grænmeti eða þurrt kex. Mörgum konum finnst gott að vera sínartandi (á beit) því ógleðin verður nefnilega oft verri ef maður er svangur. Oft hafa konur eitthvað að narta í við hliðina á rúminu sínu, t.d. tekex eða epli, og fá sér smá nart áður en þær fara á fætur. Það getur verið gott að fara aðeins út að ganga á hverjum degi í fersku lofti, en forðastu allar snöggar hreyfingar, þær geta aukið ógleðina.
Þú verður líka að gæta þess að fá næga hvíld og góðan nætursvefn. Það náttúruefni sem best dregur úr ógleði er engifer. Te úr ferskum engifer einu sinni til tvisvar á dag dregur úr ógleðinni. Það er ágætt að drekka það sjóðheitt þegar ógleðin er hvað verst. Einnig eru til sjóveikiarmbönd sem eru teygjur með litlum hnúð innan á sem þrýstir á ógleðipunkt innan á úlnliðum. Þú getur einnig þrýst á þá sjálf eða fengið manninn þinn til þess. Þessir punktar eru ca. 3 fingurbreiddir upp frá höndinni á innanverðum úlnliðnum. Svo verður bara að grípa í sjóveikilyfin þegar ekkert annað dugar.

Vona að þetta komi að einhverjum notum.

Dagný Zoega, ljósmóðir