Ógleði og túrverkir á meðgöngunni?

Spurning:

Ég er 29 ára og komin 9 vikur á leið með mitt þriðja barn. Dætur mínar eru orðnar 7 og 8 ára og það eru margar ástæður fyrir því að ég hef ekki orðið ófrísk fyrr en núna. Báðar voru meðgöngurnar mjög erfiðar og ég endaði á því að eyða miklum tíma á meðgöngudeildinni og hjá sjúkraþjálfurum. Stærsta ástæðan síðustu 4 ár hefur hinsvegar verið sú að ég er búsett í Bandaríkjunum þar sem að maðurinn minn er í námi. Ég er ekki tryggð hérna þannig að ég er ekki í aðstöðu til að fara til læknis nema borga fullt verð og það getur enginn á námslánum. Þú getur því rétt ímyndað þér að þessi síða er minn besti vinur. Ef eitthvað er að þá leita ég alltaf til ykkar og ef að ég finn ekki svarið hjá ykkur þá er bara farið á bókasafnið og ástæðan fundin þar.

En svo ég komi mér nú að vandamálinu. Ég er búin að þjást af ógleði og miklum túrverkjum frá 3. viku. Þar sem að þetta var líka svona slæmt á hinum meðgöngunum hef ég ekki velt mér neitt sérstaklega upp úr því en það sem er mest öðruvísi eru alveg rosalega sársaukafullir vindverkir, svo slæmir á kvöldin að ég hef grátið mig í svefn. Ég finn fyrir þeim allan daginn en eftir 6 á kvöldin fara þeir stigversnandi og milli 10 og 1 er varla hægt að tala við mig. Ég hef fundið að ef að ég borða mikið þá eru þeir milu verri og nú er svo komið að ég þori varla að borða. Hægðirnar eru nokkuð harðar en reglulegar en ég hef þjáðst af harðlífi og ristilkrampa svo lengi sem ég man. Ég vona að þú hafir einhver svör handa mér. Ég flyt til Íslands í endann á maí og kemst þá til læknis. Það er því ekkki ótrúlegt að ég eigi eftir að kvabba á þér aftur. Með fyrirfram þökk.


Svar:
Ristilkrampi og vindverkir aukast oft  byrjun meðgöngu og fylgja oft ógleðinni. Því geta ráð sem duga gegn ógleði einnig dregið úr vindverkjunum. Á fyrirspurnarsíðum doktor.is er heilmikið um ráð gegn meðgönguógleði. Það helsta er að borða frekar oft og lítið, drekka ekki með mat en drekka svo oft og lítið í einu, forðast allt kryddað og brasað og fara varlega í að borða fitu.

Til að minnka vindganginn skaltu til viðbótar sleppa kaffi, tyggjói, gosdrykkjum, hráu grænmeti, belgávöxtum, sítrusávöxtum, dökku kjöti, svínakjöti og grófu korni. Notaðu mjúkar trefjar eins og finnast í haframjöli, ávöxtum og berjum og gættu þess að halda hægðunum mjúkum með því að drekka mikið vatn milli mála. Fáir þú samt sem áður ristilverki getur veri gott að fara  bað eða leggja hitapoka á kviðinn.

Mörgum finnst einnig hjálpa að strjúka kviðinn eins og ristillinn liggur í öfugt U – upp hægra megin, yfir kviðinn undir bringspölum og niður vinstra meginn. Það hjálpar oft við að losa um loftið.

Vona að eitthvað af þessu hjálpi.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir