Ólétt í endajaxlatöku?

Spurning:
Kæri viðtakandi!

Ég þarf að fara í endajaxlatöku (í neðri góm) þar sem ég er farin að finna fyrir óþægindum. Tannlæknirinn minn var búinn að segja mér í haust að taka yrði jaxlana þegar ég færi að finna til. Málið er að ég er nýbúin að uppgötva að ég er ólétt og veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér. Er í lagi að fá þessi deyfilyf þegar maður gengur með barn? Einnig er ég búin að vera mikinn höfuðverk nánast á hverjum degi og vera frekar slöpp (oftast þegar ég mæli mig þá er ég með nokkrar kommur) og var ég að spá hvort það megi taka einhverjar verkjastillandi töflur?

Með fyrirfram þökk, Tann- og Hausálfurinn

Svar:
Sæl. Ef þú lætur tannlækninn vita að þú sért barnshafandi velur hann deyfilyf sem fóstrið þolir. Varðandi höfuðverkinn þá er þér óhætt að taka Paratabs en helst ekkert annað nema ráðfæra þig við lækni eða lyfjafræðing.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir