Ólétt með blöðrur á eggjastokkum

Spurning:

Halló og takk fyrir frábæra síðu!

Ég er ólétt, komin u.þ.b. 9 vikur á leið og fyrir um það bil 2-3 vikum fékk ég tvisvar með fimm daga millibili alveg rosalega verki neðst í magann. Eftir að ég fékk verkina í seinna skiptið fór ég til heimilislæknisins míns (ég veit núna að ég hefði átt að fara á Kvennadeildina!) og hann sendi mig beint í sónar hjá kvensjúkdómalækni sem sagði að ég hefði verið með blöðrur á gulbúinu, sem hefðu sprungið og þess vegna hafi þessi sársauki komið. Hann sagði líka að þetta væri allt í lagi, fóstrið sást vel og hjartslátturinn einnig. En þannig er það nú oft þegar maður er hjá lækni að maður spyr ekki alltaf um allt sem maður þarf að spyrja um og því langaði mig til að vita hvort þetta væri algengt hjá óléttum konum (ég hef aldrei fengið svona áður)og hvort það væri eitthvað sem ég þarf að óttast eða varast í sambandi við þetta? Læknirinn sagði mér líka að hætta að lyfta, en það hef ég verið dugleg að gera undanfarið ár, og ég var að velta fyrir mér hvort það væri ekki í lagi að fara að byrja á því aftur þar sem að verkirnir hafa ekki komið í rúmar 2 vikur.
Takk kærlega fyrir mig og enn og aftur fyrir frábæra síðu!

Svar:

Sæl.

Ekki hef ég haldbærar neinar tíðnitölur um þær konur sem fá blöðrur á eggjastokka, en þetta er frekar algengt. Eggjastokkunum er eiginlegt að mynda blöðrur utan um eggin þegar líður að egglosi en stundum mynda þeir blöðrur utan egglostíma og þá stækka þær oft óhóflega og geta sprungið og valdið miklum óþægindum. Þessi blöðrumyndun er hormónatengd og ekkert sem þú getur gert til að koma í veg fyrir þetta.

Varðandi lyftingarnar þá ætti að vera í lagi fyrir þig að halda áfram að lyfta – innan sársaukamarka – svo lengi sem þér líður vel af því. E.t.v. ættirðu að huga að léttari lóðum þegar líður á meðgönguna – þú finnur það best sjálf.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir