Ólétt með stuttan legháls?

Spurning:
Ég var í sónar, komin 18 v. á leið, og meðal þess sem var athugað var lengd leghálsins og kom í ljós að hann er of stuttur (2.7). Ég vildi gjarnan fá nánari upplýsingar hvað þetta þýðir og hvort að stuttur legháls á þessum tíma meðgöngu auki verulega líkur á fyrirburafæðingu?  Hvað er yfirleitt gert í svona tilfellum?

Svar:
Ágæti fyrirspyrjandi.

Óska þér til hamingju með þessa þungun.
Leghálslengd er yfirleitt talin eiga að vera 3-4 cm, en fer þó eftir ýmsu. Ég veit ekki af hverju mælingin þín var gerð, því almennt er legháls ekki metinn nema saga sé um að kona hafi farið í keiluskurð sem hafi verið í stærra lagi eða hafi sögu um að hafa fætt og eða misst áður skammt gengin. Sé svo, þarf að fylgjast vel með þér, e.t.v. á 3-4 vikna fresti og meta leghálslengd og ef hann styttist er hægt að setja svokallaðan saum sem lokar fyrir og hjálpar að fyrirbyggja að fæðing fari of snemma af stað auk annara ráða. Hafir þú hins vegar enga sögu um slíkt, er ekki líklegt að þetta hafi neinar afleiðingar en væri þó vert að aðgæta aftur leghálslengd 3-4 vikum frá fyrri mælingu.
Vona þetta hjálpi og að meðgangan gangi vel hjá þér.

Arnar Hauksson dr med.