Spurning:
Það sem mig langaði að fá að vita hve áhættan er að hafa kött á heimilinu þegar maður er ófrískur. Ég er komin 14 vikur á leið og læðan er búin að vera heima hjá mér í tæpt ár. Hún er inniköttur, geld, ormahreinsuð og ofsalega kelin. Það hefur komið fyrir að hún hafi skitið á gólfið og ég hef iðulega hreinsað það upp sandinn hennar en svo er ég að heyra að það geti verið ófrískum konum óhollt að hreinsa upp stykkin eftir þau. En ég hef líka heyrt að það geti gert börnunum gott að hafa dýr á heimilinu, sérstaklega ef þau eru búin að vera í einhvern tíma áður en þungunin verður og ég tala ekki um þegar þau eru innikettir og umgangast ekki önnur dýr. Ég er alveg ráðalaus í þessum málum og mig langar síst að losa mig við hana. Ég vona að þú geti gefið mér einhver svör.
Svar:
Hættan á að smitast af einhverju óæskilegu er sáralítil þótt þú hafir kött á heimilinu. Það á sérstaklega við ef um innikött er að ræða sem aldrei hefur veitt dýr í villtri náttúru. Þó er óæskilegt að þú þrífir upp skítin eftir kisuna þína og skiptir um kattasand. Láttu einhvern annan sjá um það verk. Gættu þess einnig að þvo þér vel um hendur eftir að þú hefur kjassað köttinn – einnig eftir að barnið er fætt. Vertu svo bara ánægð með þína kisu – börnum er hollt að alast upp með dýrum.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir