Ólétt og vil hætta að reykja

Spurning:

Sæl og blessuð Dagmar.

Mig langar svo mikið til að hætta að reykja. Ég er þunguð og er komin u.þ.b. 16 vikur á leið. Ég hef lesið bók sem heitir „Létta leiðin til að hætta að reykja“, eftir Allen Carr, kannastu við hana? En það er t.d. óhollt veit ég, að vera með nikótíntyggjó á meðgöngu, svona svipað og að reykja. En hvaða aðrar leiðir getur maður notað til að stöðva nikótínskrímslið og heilaþvottinn, því það er jú bara heilaþvottur að reykja. Það er ekkert gott að reykja, það er bara af því að maður telur sér trú um það.

Hefurðu einhver svör við þessu?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Ég þekki „léttu leiðina“ eftir Allen Carr og ef það dugar þér þá er það gott. En mér heyrist samt að þú þurfir eitthvað kröftugra, ekki satt? Þó þú sert þunguð er ekkert því til fyrirstöðu að nota nikótínlyf, það er ekkert svipað og að reykja. Í nikótínlyfjum er aðeins nikótín, en ekkert af öllum kemisku efnunum sem tóbakið hefur og er svo skaðlegt fyrir líkamann og þá einnig fyrir fóstrið. Þú hefur núna 5 mánuði til að trappa ykkur niður og barnið þitt þarf ekki að ganga í gegnum fráhvarfseinkenni þegar það fæðist. Nú veit ég ekki hvað þú reykir mikið, aldur og aldur sem þú byrjaðir að reykja. Þú byrjar með plástur (sterkasta) í 2 mánuði, síðan þann næst sterkasta 1 mánuð, síðan þann daufasta í mánuð. Þegar hér er komið er svo lítið magn af nikótíni í líkamanum að þú getur notað viljann til að standast smók síðasta mánuðinn.

Gangi þér vel,
Dagmar Jónsdóttir, reykingaráðgjafi.