Ólétt og vill hætta að reykja?

Spurning:
Ég er komin 8 vikur á leið með mitt þriðja barn. Ég reyki, en er að undirbúa mig undir það að hætta. Ég hef keypt mér nikótíntyggjó og hef ákveðið daginn sem ég ætla að drepa í. En mér bárust upplýsingar til eyrna í dag sem ég verð að spyrja út í. Þær voru á þá leið að ófrískar konur ættu ekki að hætta snöggt að reykja, heldur „trappa“ sig niður, reykja færri og færri sígarettur þangað til alveg er hætt, og alls ekki nota tyggjó. Ef hætt er skyndilega snemma á meðgöngu gæti það verið hættulegt fyrir fóstrið. Ég spyr, er þetta rétt ? Ég vil endilega fá upplýsingar um hvernig best sé að snúa sér í þessu og hvort að nikótíntyggjóið sé óæskilegt.

Svar:
Það er gott að heyra að þú ert ákveðin í að hætta að reykja og einnig er skynsamlegt hjá þér að huga vel að undirbúningnum. Það besta sem þú gerir fyrir þig sjálfa og ófætt barn þitt er að hætta reykingum sem fyrst. En það er ekki hættulegt fyrir fóstrið ef verðandi móðir hættir skyndilega að reykja. Til að losna úr viðjum síðustu sígaretnanna er þér óhætt að nota 2 mg nikótíntyggjó í staðinn fyrir þær sígarettur sem þér er erfiðast að sleppa. Við viljum hvetja þig til að halda þig við daginn sem þú valdir, en þar sem við höfum takmarkaðar upplýsingar um reykingasögu þína, viljum við bjóða þér á að hafa samband við okkur sem störfum hjá Ráðgjöf í reykbindindi til að fá frekari upplýsingar og stuðning.

Með baráttukveðju
Dagbjört og Jóhanna